fimmtudagur, 7. apríl 2005

Er einhver að spá í þessu?! Þvílíkt flipp! Það er brunahani hérna á myndinni. Ótrúlegt og magnað, og allt tilheyrandi.

En til að víkja að alvarlegri málefnum, þá er kosningavikan loks að ljúka hér í ástkærum menntaskóla mínum, en það er sá tími er fólk leggst sem lægst. Gráðugur múgurinn svífst einskis til að næla sér í meira af ókeypis viðbjóði, hamstrar eins mikið og mögulegt er og lætur öllum illum látum þegar ekkert er í boði. Allt sem kallast málefnalegar kosningar fýkur út í veður og vind og neyslusamfélagið tekur yfir, steypir manneskjunni niður í hyldýpi algleymsku, neyslu og dauða. Og þetta smitar út frá sér. Mér bauð við þessu þegar ég sá þetta fyrst, en þegar leið á tímann stóð ég sjálfan mig við það að rífa snakkpoka af greyið framboðsmanni í Íþróttaráð, sem sagði aumkunarvert við mig: "Við komum með þetta að borðunum". Ég snéri mér við, en ríghélt í pokann, hunsaði öll viskuráð hans og endaði sem sigurvegarinn með pokann sjálfan. En var ég sigurvegari? Nei, alls ekki. Ég er aðeins gráðugt svín.

Svo fóru mótmæli fram fyrir framan Menntamálaráðuneytið, en þar finnst mér hefði mátt vera róttækari öfl á ferð. Við höfðum fjöldan, það mun enginn deila um. Langt yfir þúsundir manna, myndi ég giska á. En þó ég sé ekki að ýta undir eggjakast, eða eitthvað slíkt sem myndi flokkast undir grófan barnaskap, þá vildi ég samt fremur hafa mótmælin örlítið neðar á friðsældarskalanum. Fínt að hafa smá reglu í þessu, á meðan hlustað var á rök nemenda frá hinum ýmsu skólum, en þó mótmælin séu friðsamleg getum við samt alveg staðið þarna, staðföst á okkar máli. Sýna þeim að okkur er ekki sama. Hefði verið margfalt öflugra að setjast fyrir framan ráðuneytið, eins og var gert fyrst, og neita algjörlega að hreyfa sig. Sýna að við viljum að hlustað verði á okkur, eða þið verðið hreinlega að draga okkur nauðug burt. Ef málefnalega stefnan tekst ekki, þá verður einfaldlega að sýna smá róttæk mótmæli.

Engin ummæli: