mánudagur, 4. maí 2009

Kíosk

Ég komst eins nálægt því að vera skotinn og mögulegt er, þegar maður er Íslendingur, kaupir ekki hass og klæðir sig eins og hippi, ekki gangster, um daginn. Venjulega vakna ég ekkert sérstaklega snemma. Venjulega fer ég á fætur eftir 11 og er oftast á leiðinni út úr kíoskinu á horninu þar sem ég á heima klukkan korter yfir 12. En kl. korter yfir 12 á þriðjudeginum fyrir viku síðan þeystust tveir menn á mótorhjóli framhjá kíoskinu með vélbyssur og skutu mann sem var að labba þar fyrir utan (hann hafði víst einhver örlítil gengis-tengsl, en það er ekkert búið að sanna.) Fólk hljóp á eftir mótorhjólagenginu, bróðir mannsins hrópaði eftir hjálp og stemningin í götunni stigmagnaðist allsvakalega þannig að löggan lenti í smá slagsmálum.

Ég fór hinsvegar á fætur kl. 10 þennan dag og labbaði þess vegna út úr kíoskinu klukkutíma áður en venjulega. Efast um að ég komist nokkuð nær því að verða skotinn en þetta, og þess vegna það versta yfirstaðið fyrir mig. Engin ástæða að vera hrædd um líf mitt.

laugardagur, 21. mars 2009

Jóna

Núna er ég loksins búinn að eignast litla frænku. Ég er því kominn með hinn mjög vinsæla titil móðurbróðir. Eða einfaldlega onkel, á dönsku. Þegar ég fékk fréttirnar, 17. mars, að litla stelpan væri komin í heiminn, 17 merkur, varð ég afskaplega glaður. Hljóp um leið út í búð og keypti vindil og deildi honum með Olgu, Danna og Elíasi í Kongens Have.

Ég er ekkert smá spenntur fyrir því að heimsækja fjölskylduna á Íslandi. Þannig að Íslendingar geta farið að undirbúa sig fyrir komur mínar, sem verða væntanlega margar á þessu ári. Ég ætla mér nefnilega ekki að vera "Jón frændi, sem býr í Danmörku og þú hefur aldrei séð.." Skilst mér að hún eigi víst þrjá onkel-a, mig og bræður hans Ásbergs. Samkeppnin verður því hörð, sérstaklega þar sem þeir búa á Íslandi, en ég er staðfastur á að verða uppáhalds onkel-inn hennar.

Hún er víst ekki komin með nafn ennþá, en ég er að sjálfsögðu búinn að segja öllum hér að hún muni heita Jóna, í höfuðið á uppáhaldsfrændanum sínum, ef ég fæ einhverju að ráða. En ég efast samt um að ég fái að ráða einhverju í því..

fimmtudagur, 5. mars 2009

Guns of Nørrebro

Ég bý á Blågårdsgade, sem liggur á Nørrebro. Það er, samkvæmt íslenskum fréttum, stríðsástand á Nørrebro. Það er dálítið ýkt.

Af og til eru hinar ýmsu skotárasir, þá oftast aðeins lengra upp Nørrebrogade en þar sem ég bý. Tveir færeyingar voru t.d. svo óheppnir að hjóla hægt niður eina götu, í leit að skemmtistað. Þeir vissu ekki að það er svakalega grunsamlegt, að minnsta kosti hvað varðar götugengin, að hjóla hægt. Það endaði ekki vel fyrir þá færeyinga.

En þetta eru bara fréttir. Ég hef ennþá ekki séð, né heyrt í skotárásum. Geri þannig séð bara ráð fyrir að ef ég held mig við dagsljós og þá minnst skuggalegu skemmtistaði og kaffihús, er ég ekki í neinni hættu sem ég gæti hafa forðast annars. Ef "rokkararnir" ákveða að fara að drulla haglaskotum á vegfarendur um miðjan daginn á Blågårdsplads, fer ég kannski að íhuga að flytja. En þangað til líður mér bara mjög vel á Nørrebro.

Annars unnum við í vinnunni verðlaun fyrir bestu auglýsingu á Zulu Awards. Auglýsinguna getiði séð á heimasíðunni okkar.

sunnudagur, 22. febrúar 2009

KuntzKoppel.dk

Jæja, ekkert mikið búið að gerast hér, en ég skellti mér í heimasíðugerð og gerði nýja heimasíðu handa stúdíóinu sem ég vinn hjá. Þar er meðal annars hægt að nálgast nokkur vídjó sem ég hef unnið að síðastliðin ár. Heimasíðuna finnið þið hér.

mánudagur, 2. febrúar 2009

Víborg

Ég kom aftur frá Viborg, á Jótlandi, síðasta Laugardag. Ég og Christian keyrðum í fjóra tíma, allsvakalega þunnir. Í Viborg, mjög lítill bær, er sumsé Animationsskóli og í þessum skóla voru þriðja árs nemarnir að klára lokaverkefnið sitt og fá Bachelor gráðu. Þar af leiðandi var stærðarinnar partí á Föstudeginum. Og ef þið þekkjið mig rétt á ég ekki auðvelt með að sýna ábyrgð og skella mér heim á undan öllum öðrum, bara af því að ég þarf að vakna snemma morguninn eftir.

Þannig að ég var í partíi til kl. 9 um morguninn og keyrði af stað til Köben kl. 12. Sem betur fer þurfti ég ekki að keyra bílinn.

Annars þurfti blessaða myndavélin mín að fara í rugl um leið og ég kem til skólans, þar sem meðal myndefna voru hlutir á borð við risastórt sjóræningjaskip, með litlum stop-motion sjóræningjum, og að sjálfsögðu mini-útgáfa af því skipi fyrir víðskot. Franskur maður var búinn að vera að vinna að þessu skipi síðasta eitt og hálft árið. Vonandi verður hann búinn að þessu fyrir 2011..

Það var annars mjög gott að komast út fyrir Köben, og það líka án þess að borga fyrir far og herbergi. Þurfti á smá sveitalífi að halda.