föstudagur, 11. mars 2005

Músíktilraunir

Ísland er vel þekkt fyrir óhóflegt magn kindar, fyllerí og gnægð tónlistar. Í tilefni af því síðastnefnda, og örlítið af því fyrsta, þá er árlega keppt um titilinn 'Music Experementation Master', sem lauslega þýtt yfir í íslensku væri Músíktilraunameistari. Það sem einkennir þessa keppni einna helst eru ungmennin sem berjast blóðugum bardaga fyrir þennan titil, enda margir listamenn í þessari keppni, og eins og flestir vita eru listamenn harðir sem grjót. Þeir eiga það til að flippa, af og til, en innst inni eru þau bæld af reiði, sem þau fá aðeins útrás fyrir í verkum sínum. Og svo á þar til gerðum keppnum.
Og Músíktilraunir eru þar engin undantekning. Ég, spenntur eftir loforð um blóð á sviði, svínsslátrun og þesslags, mætti á Fimmtudagskveldi niður í Tjarnarbíó. En ekki nóg með það að engu svíni var slátrað, á sviði þ.e.a.s., þá var eini vökvinn sem sást á staðnum mjólk. Hinsvegar, hljómaði allt mjög skemmtilega, og jafnvel vel. Kresus, eða Kremur - Kremsur? - auk We Painted The Walls voru best fyrir hlé.
Eftir hlé tók hinsvegar svefngalsi algjörlega yfirhöndina og stýrði líkama mínum til ódáðaverka. Í hvert skipti sem ég sá eitthvað fyndið gerast á sviði, átti ég erfitt með að halda hlátrinum niðri, sem átti ekkert rosalega vel við þegar fólk var að performa hádramatískt, og fallegt, lag þarna uppi. Stjörnurnar eftir hlé voru óumdeilanlega Dóri og Sverrir, auk Adda og - vá, ég er ömurlegur með nöfn - Hr. Trommuleikara, í hljómsveitinni Stjörnuhrap. Sú hljómsveit, eftir að hafa heyrt í þeim núna í kvöld, í fyrsta skipti á ævi minni, hefur hoppað beint í efsta sæti uppáhalds íslenskra hljómsveita minna (ég leyfi mér að efa málfræði mína hér, og ef einhver sér hana, þá má sá hinn sami endilega leiðrétta mig í kommentum.)
Hinsvegar, þá voru örlögin ekki hliðholl þeim Dóra, Sverri og herramönnunum fínu í Stjörnuhrapi, þar sem dómnefnd kaus We Painted The Walls og salurinn valdi Mjólk, 6 og fúnk (sem var ótrúlega hress sveit, mjög grúví, og kannski þessvegna sem að salurinn valdi þá, en ég hefði viljað einhverja aðra sveit), þrátt fyrir svaðalegt gítarsóló hjá bæði Sverri - þetta intró, guð minn góður - og Dóra. Sverrir tók svo gríðarlega á gítarnum að hann braut gítarnöglina, og mátti sjá, ef maður er almennt góður á sjón, litla flís fljúga yfir sviðsgólfið. Við erum að tala um brotna gítarnögl hérna, og þeir vinna ekki?! Óskiljanlegt. Algjörlega út í hött.
Já, meðan ég man, Mobilus, held ég að þeir hafi heitið, fá mitt hrós fyrir að koma mér í endalaust hláturskast þegar trommarinn stóð upp, settist við minnsta hljómborð sem ég hef séð og glamraði upp nokkrar xýlófón nótur í miðju rokklaginu. Svefngalsinn varð til þess að ég lá í hláturskrampa út allt lagið.

Lög dagsins - eða réttara sagt kvöldsins:
  • Stjörnuhrap - Júpiter grætur
  • Stjörnuhrap - Ást á tækniöld

Engin ummæli: