Ég ímynda mér oft að þegar ég verð orðinn eldgamall karlfauskur, ætla ég ennþá að vera eldhress gaur sem er alltaf til í flippið. Þá get ég t.d. alltaf verið fyrstur inn í strætó, og stríði þá litlu krökkunum þegar ég hoppa inn. Ef ég verð lagður inn á elliheimili, sem ég vona eindregið að gerist ekki, þá ætla ég alltaf að stofna til hjólastólakappaksturs, og vera almennt með vandræði. Brjóta fáeina blómavasa. Svona, almennt flippaður gaur.
En svo hugsar maður, og það alveg ósfjálfrátt, að þetta eru einungis draumórar og að lífið eftir sjötugt verði rólegt og sneisafullt af krosssaum. Ég sé fyrir mér að heyrnin mín verði fyrst til að fara, enda nógu slæm nú þegar. Ætli ég verði þá ógeðslega pirrandi gaurinn í strætó sem talar geðveikt hátt í símann? Þá þyrfti ég að fá mér geðveikt stóran síma, svona til að halda kúlinu, eins og gaurinn í Trigger Happy TV. Vá, það voru góðir þættir.
En annars ímynda ég mér margt, og fátt af því merkilegt, en ef aðeins helmingurinn af því myndi rætast væri heimurinn talsvert öðruvísi í dag. Svo er líka bara örlítið snemmt að byrja hugsa um ellina, svona á meðan maður er ennþá strákakjáni.
Núna þegar ég hugsa út í það, þá vil ég vera eins og afi minn, heitinn, þegar ég kemst á mín seinni ár. Hann var alltaf til í slaginn þegar ég var lítill, fyndinn og almennt séð hress og flippaður á'ðí. Ég er ekki frá því að hann hefði verið einn sá hressasti í fjölskyldunni ef hann hefði ekki alltaf reykt svona mikið. Ég geri mér stundum ekki grein fyrir því hversu mikið ég sakna hans.
miðvikudagur, 9. mars 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli