Þetta er örugglega einn tilbreytingarlausasti Sunnudagur í manna minni. Það hefur bókstaflega ekkert gerst í dag. Hápunktur dagsins, áður en ég kafnaði næstum því á spaghettíinu sem ég fékk í kvöldmat, var þegar ég fattaði að það voru ennþá fleiri leikir á 42 in One leiknum á Nintendo tölvunni.
Ég komst að mörgu sniðugu þegar við spiluðum Fimbulfamb um daginn, en milli þess að læra um andfúla sjómenn og bakarahugtök kom upp ein skemmtilegasta íslenska þýðing sem ég hef nokkurntímann séð. Það var hið íslenska orð yfir enska orðið "feedback". Orðið, dömur mínar og herrar, var bakveiti. Þegar ég heyrði þetta orð hugsaði ég til baka og minntist atburða eins og þegar ég, og samleikarar mínir Anton og Miriam, sungum lagið okkar fyrir leikritið á æfingu, og löbbuðum framhjá risastóru hátölurunum sem var dreift um allt, og út úr þeim heyrðust miklar drunur. Ég vildi bara að ég hefði vitað þetta orð þá.
Þá hefði ég staðið upp, horft upp í hljóðherbergið og kallað "Eyþór! Passa bakveitið!"
Nei, bíðið nú aðeins við. Það gerðist eitt mjög merkilegt í dag. Ég horfði á fyrsta þáttinn í American Dad og verð ég að segja að þetta var bara þrusugóður fyrsti þáttur. Endalaust hægt að bera hann saman við Family Guy, og þá mun hinn feiti, hjartagóði Pétur alltaf koma út á toppnum, en þetta lofar allt mjög góðu. Gullfiskurinn, með heilann úr þjóðverja, var sérstaklega fyndinn. Dálítið eins og Stewie, ef hann væri þýskur og hrifinn af mömmunni.
sunnudagur, 6. febrúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli