Einn rólegasti laugardagur lífs míns? Já, ég held það bara.
Tók allsvakalega til í herberginu mínu, raðaði öllu upp á nýtt. Það eina sem ég gerði ekki var að færa til húsgögnin og flísaleggja. Mér líður eins og ég sé nýfluttur inn. Núna þegar ég pæli í því, þá hefði ég átt að finna mér freyðivín og halda upp á hreinleikann í herberginu.
Nei, nei. Það hefði verið sorglegt.
Svo fór ég á kaffihús með ýmsum fjölskyldumeðlimum, ættingjum og Sif. Hápunktur þessarar ferðar voru litlu strákarnir hennar Hafrúnar sem voru, eins og venjulega, mestu krútt í heimi. Sif er augljóslega ótrúlega góð með krakka, því þeir dýrka hana báðir. Pabbi opinberaði það einnig að hann býst fastlega við því að ég verði fyrstur af okkur systkinunum til að eignast krakka. Talandi um vandræðalegt augnablik.
Svo stoppuðum við í Eymundssyni, miðpunktur hámenningar, og ég sá þar áhugaverða bók um sjónbrellur í kvikmyndum. Ég hef alltaf haft áhuga á því að framkvæma slíkar brellur, en það var ekki fyrr en ég sá þessa bók sem að ég hugsaði: "Já, það væri örugglega mjög áhugavert að gera tæknibrellur í kvikmyndum. Eins og þetta. Vá. Að hugsa sér, þetta leit út eins og risastór brú að springa í tætlur, en þetta var í raun bara agnarsmá brú og bíll á stærð við mannshaus. Þvílíkt og annað eins hef ég bara ekki upplif- Vó, er ég með klósettpappír á skónum mínum? Hvernig komst hann þangað? Hvað er ég að gera í Vísindaskáldsagnadeildinni? Ætli þeir eigi eitthvað með Terry Pratchett?"
Og smátt og smátt hætti ég algjörlega að hugsa um tæknibrellur.
Löngun dagsins: iBook og stafræn myndavél
sunnudagur, 13. febrúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli