Það er rétt. Ég er kominn með stutt hár og ég get engan veginn vanist því. Er með þá leiðinlegu aukaverkun að vera alltaf að hrista hausinn til að fá ímyndaða hárið mitt úr andlitinu. Svolítið eins og hermenn sem missa fótinn en finna ennþá fyrir honum löngu seinna. En þar að auki hef ég fundið aðra tilfinningu. Eins og alltof feitur karlmaður, sem grennist síðan allverulega og sér typpið sitt í fyrsta skiptið í mörg ár. Hef ekki séð þetta ágæta andlit í hátt í tvö ár, að minnsta kosti ekki án þess að einhver óskapnaður hylji bróðurpart þess. Og það er eitt sem ég tók sérstaklega eftir við þessa miklu breytingu. Ég hef alveg frekar saklaust andlit.
Ég ætla ekki að gera fólki þann óhugnað að sýna mynd af mér hér, þið verðið bara að koma og hitta mig, en þetta mun koma á óvart.
Svo er annað í fréttum að fyrir allnokkrum dögum hrósaði faðir minn mér fyrir bloggið mitt. Þetta kom mér dálítið á óvart, þar sem ég hafði alltaf gert ráð fyrir að foreldrar mínir myndu aldrei nenna, eða þora að lesa þessa samsteypu heilans míns. En hann minntist sérstaklega á kostulega lýsingu mína á handboltaáhorfi hans. Kannski heldur pabbi minn núna að ég eigi eftir að verða lokaðri og skrifa minna í þennan vefleiðara, en hann hefur rangt fyrir sér.
Þetta breytir engu!
þriðjudagur, 1. febrúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli