sunnudagur, 30. janúar 2005

Gillette Mach 3

Ég hef rakað mig í þó nokkur ár, og mér hefur aldrei fundist það vera neitt merkileg upplifun. Annaðhvort reif rakvélin bara í skegg mitt eða mig klæjaði og sveið undan raksápunni. En eftir þessi mörgu ár af einnota rakvélum og bitlausri rakvél frá pabba mínum, ákvað ég að hlusta á innri rödd mína, sem kallaði: "Jón, þú átt betra skilið."

Einhversstaðar heyrði ég sagt að ef þú ert ekki að njóta rakstursins ertu að gera eitthvað vitlaust. Og ég var svo sannarlega að gera eitthvað bandvitlaust. Mig sárvantaði réttu tólin í verkið. Ég tók mig því til, dreif mig út í búð og lagði hönd á eitt stykki Gillette Mach 3 rakvél, rakvélablaðasett og Nivea raksápu. Á leiðinni heim hugsaði ég um endalausu Gillette auglýsingarnar sem maður hafði séð alveg frá mínum yngri árum. Þessar ótrúlegu, þrívíðu auglýsingar þar sem rakvélin bókstaflega flaug framhjá húðinni og kippti hverju hári fyrir sig, sársaukalaust. Svo enduðu þær alltaf á því að karlmaðurinn sem stóð fyrir rakstrinum leit á spegilinn sinn, þreifaði á hökunni sinni, fann fyrir silkimjúkri húð sinni og brosti svo skjannahvítu brosi beint í áhorfendur.

Auglýsingarnar, þrátt fyrir að hafa virkað óraunhæfar, voru allar sannar. Þetta er líkt og að hafa fullt af ótrúlega litlu smáfólki, standandi við hvern einasta skeggbrodd, snyrtandi þá án þess að ég þurfi að lyfta fingri. Þetta var ómetanleg athöfn, eitthvað sem ég mun nú hlakka til að stunda á hverjum morgni. Mér leið eins og ég hefði verið að raka mig með ryðguðum hníf öll síðastliðin ár og það munaði minnstu að ég gréti af hamingju þegar mjúku blöð Makkarans struku húð mína með blíðum strokum.

Mig langar hálfpartinn að demba mér inn á bað og raka mig aftur. En nei, það væri nú heldur betur kjánalegt.

Engin ummæli: