Afmæli Sigga Odds og Guðrúnar hefði verið mjög skemmtilegt að laugardagskveldi, hefði það ekki endað með óhóflegri áfengisdrykkju af minni hálfu.
Já, dömur mínar og herrar. Jón, oftast kenndur við hæð sína, hefur greinilega enga stjórn á magni alkahóls sem fer um hans varir, sérstaklega ekki þegar frítt er á barnum. Ég nýtti mér þá snilldarlegu strategíu að þamba bjórinn eins hratt og unnt væri til að geta torgað enn öðrum, án þess að borga. Þetta gerði ég þangað til að bjórinn var búinn og var ég þá ekki í ástandi til að gera neitt nema að labba heim og láta öllum illum látum. Ég kaus að labba heim.
Þetta hefði verið allt í fína, því jú, íslendingar eru nú mjög rólegir á þessum tíma niðrí bæ, hefði þetta afmæli ekki skyldað fólk til að mæta í búningum. Allir mættu í mjög skemmtilegum búningum, Siggi Odds sem aðalgaurinn í Clockwork Orange, Védís í sveppabúning og Eva sem Marilyn Monroe. Ég, hinsvegar, ákvað að koma sem krakkinn úr The Shining, í tileyrandi náttfötum, með risabangsa og muldrandi "redrum" af og til. Sem er allt gott og blessað, nema að á leiðinni heim, út úr heiminum af áfengisneyslu, leit ég út eins og einhvern nýsloppinn af Klepp. Ég rétt náði að draga mig alla leið heim, í náttfötum og með þennan fáranlega stóra bangsa undir annarri hendinni.
Ég er ennþá þunnur ennþann daginn í dag, eftir þessa skrautlegu lífsreynslu, aðallega vegna þess að ég róaði mig eiginlega ekkert niður í gær, heldur hélt af stað út með vini mínum á opið hús í Háskóla Íslands. Var frekar mikið út úr heiminum, spurjandi sjálfan mig hvað ég væri eiginlega að gera þarna inni þar sem ég hafði tekið meðvitaða ákvörðun um að fara ekki í háskóla. En svo sá ég fullt af fríum pennum og gefins gos, þannig að ég lét mig bara fljóta með fólksfjöldanum um hina ýmsu upplýsingabása, sníkjandi allan fjandann úr fólki.
mánudagur, 28. febrúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli