þriðjudagur, 1. mars 2005

Jákvætt viðhorf

Ég þarf að fara að temja mér jákvæðara viðhorf. Sumir myndu segja að ég hefði nóg af því, enda oft hress og kátur, en nei það er ég nú ekki alltaf.

Málið er að ef þú hugsar alltaf mjög jákvætt um allt, þá líður þér strax mun betur á alla vegu. Í staðinn fyrir að velta sér upp úr því að vera auralaus, hugsar maður frekar 'Ég skulda þó engann pening.' Nema, ég skulda pening. Ekki neitt rosalega mikið. Olga, þú veist alveg að ég mun borga þér.

Síðustu vikur hafa verið eins langt frá jákvæðni og hægt er, eða svo virðist. Einn daginn er ég sáttur með sjálfan mig, stöðu mína í lífinu og ákvarðanir mínar en daginn eftir finnst mér eins og allir hati mig. En ég er sannfærður um að slíku sé lokið núna. Það eina sem hægt er að gera er að hugsa jákvætt til framtíðarinnar. Mín býður heilt ár í spennandi landi, þar sem mér munu vonandi opnast margir möguleikar. Sumarið lofar góðu, miðað við veðráttina rétt í þessu. Fuglarnir tísta kvæði í mín eyru.

Eða, réttara sagt, einn fugl. Blái skrattinn hérna við hliðina á mér. Alveg magnað hvað hann getur engan veginn haldið kjafti. Hvar var ég?

Ég verð hinsvegar að segja eitt, varðandi það sem ég hef verið að tjá mig um þessar síðustu málsgreinar. Vinir skipta óendanlega miklu máli. Ég veit ekki hvar ég væri án þeirra, í þeirri stöðu sem ég er núna. Þið vitið öll hverjir þið eruð. Þakka ykkur fyrir.

Núna læt ég ekki sjá mig án þess að vera með bók í hendi, en það er hluti af nýrri stefnu sem ég hef tekið í lífinu. Ætla að reyna að vera aðeins menningarlegri. Ekki það að ég hafi íhugað líf hins snobbaða menningarvita, heldur hef ég bara komist að því að það getur verið mjög gott, og róandi fyrir hugann, að glugga í hluti eins og bækur af og til, sérstaklega góðar bækur á borð við Discworld seríuna hans Terry Pratchett. Endurlesning á fyrstu bókinni er nær lokið, og eftir það ætla ég að demba mér í Hitchhiker's Guide to the Galaxy, svona áður en myndin kemur út. Annar liður í þessu plani er líka að temja mér hraðari lesningu, eitthvað sem ég hef ætíð átt erfitt með.

Með þessarri nýju menningarstefnu ætla ég líka að fara að njóta áfengis betur. Í stað þess að svolgra það í mig, og að jafnaði enda hálfmeðvitundarlaus út í horni, væri mun betra að drekka það eins og herramaður, virkilega njóta þess. Því, jú, mér finnst vín mjög gott og þess vegna algjör sóun, bæði á peningi og góðu bragði, að drekka það svona hratt eins og ég er orðinn alltof vanur að gera. Þetta kemur beint í kjölfar af einu versta fylleríi mínu (sjá síðustu færslu).

Ég ætla að hætta að skrifa núna, áður en allir deyja úr leiðindum.

Já, eitt að lokum. Mér leiddist svo mikið í gær að ég tók kameruna hans pabba og tók upp eina mjög stutta stuttmynd, sem var þó aðallega gerð í þeim tilgangi að prófa ákveðinn effekt en endaði sem svona hálfgerð stuttmynd. Ég kem henni á netið sem fyrst, þið neyðist bara til að bíða alveg rosalega spennt. Eða ekki.

Þú ræður.

Engin ummæli: