Ég er orðinn algjörlega háður iMac-anum hans pabba. Hún er svo hljóðlát, og svo einföld í notkun að ég fer alltaf beint í hana ef ég þarf að komast á MSN eða blogga eða gera einhverja einfalda hluti á alheimsnetinu! Um leið og ég kem nálægt tölvunni minni, þarf ég eyrnatappa til að lifa af.
Ég hef líka komist að því að fuglinn minn er augljóslega að njósna um mig. Þetta virðist allt mjög saklaust hjá greyinu. Tíst hér og þar, en í hvert skipti sem ég lít á búrið hans er hann að horfa beint á mig. Þetta er eiginlega frekar ógeðsleg tilfinning, að það sé alltaf einhver að fylgjast með mér, hvort sem það er fuglinn, bangsinn minn eða, jáh, sjónvarpið mitt. Gæti alveg verið einhver inn í sjónvarpinu að fylgjasta með mér. Ég meina, allt getur gengið. Lengi vel hélt ég að það væru litlir álfar að teikna hluti á sjónvarpið mitt. Þetta var þegar ég var mjög lítill. Eftir það, þegar ég vissi loksins að þetta væri allt mjög nátengt rafmagni og allskonar bylgjum og skít, trúði ég að ég myndi fá ferköntuð augu ef ég horfði of mikið á sjónvarp. Eða svona, ég lifði í afneitun. Mamma var alltaf að segja mér þetta, og ég fussaði og sveiaði yfir því, en í laumi fór ég alltaf að speglinum og grandskoðaði augun mín og sannfærði þannig sjálfan mig að ég myndi alveg þola fleiri daga af sjónvarpsglápi.
Og út frá því spratt næturvani minn, að labba inn í stofu, kveikja á sjónvarpinu, setja spólu í vídjótækið. Spólan sem varð oftast fyrir valinu var að sjálfsögðu Hrafninn flýgur. Í langan tíma voru uppáhaldsorðin mín "Þungur hnífur."
Í framhaldi þess að horfa á ofbeldishneigðar bíómyndir um víkinga og þesslags, koma kjánapör eins og að brenna mig á nefinu með sígarettukveikjara úr bíl (hélt að þetta væri stimpill, sem reyndist tæknilega séð rétt..) og að láta bílinn okkar renna á hallandi bílastæði niður á kyrrstæðan bíl þegar ég var fjögurra ára. Ofbeldishneigðin augljóslega farin að vaxa, foreldrum mínum til mikilla hausverkja.
Og svo segir fólk að bíómyndir hafi engin áhrif á fólk.
þriðjudagur, 4. janúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli