Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að MR-ingar væru frekar hrokafullir einstaklingar. Alltaf talandi um hvað skólinn sinn sé bestur, talandi latínu og þess háttar. Ég fylgdist með flest öllum gömlu vinum mínum smátt og smátt breytast í harðsvíraða MR-inga, sem gera ekkert annað en að setja út á aðra skóla.
En svo áttaði ég mig á því að MH-ingar eru ekkert öðruvísi. Þegar umræðan snýst um MH, þá finnst MH-ingum allt tengt sjálfum sér betra og að MR sökki. Svo ég tali nú ekki um hvað öllum finnst Verzló ömurlegur.
Það væri lengi hægt að telja upp hvað er óþolandi við MH. Stéttaskipting, milli Miðgarðs, Matgarðs og Norðurkjallara. Endalaust getur þetta Norðurkjallarafólk talið sig vera ofar öllum hinum sem sitja utan kjallarans og ruglið magnast bara ennþá meira upp þegar maður er kominn upp á sviðið. Og Matgarðsfólkið er sífellt að tala um hversu hrokafullir allir séu í Norðurkjallara, en tala síðan sjálft niður til "nördanna" sem sitja uppi á Miðgarði. Og Miðgarðsfólkið telur sig vera skynsamara en allir aðrir, því þeir kjósa rólega og gáfumannslega lífið uppi á Miðgarði, en láta síðan öll eins og apar þarna uppi. MH-ingar eru síðan alltaf svo uppteknir við það að reyna að vera öðruvísi en aðrir að þetta endar allt með því að allir eru nákvæmlega eins. Í stað þess að fólk sé öðruvísi, þá breytist það í eitthvað tískufyrirbrigði þar sem að allir verða að vera öðruvísi. Að sjálfsögðu er ég gróflega að alhæfa hérna, en þið skiljið vonandi hvað ég meina.
MH-ingar eru ekki í neinni stöðu til að gagnrýna aðra skóla fyrir að innihalda óhóflegt magn af og chockóum og tungumálasnobbi. Það er margt sem aðgreinir okkar skóla frá öðrum, en það gerir hann engan veginn að betri skóla. Betri, og hentugri, fyrir sjálfan sig, að sjálfsögðu. En stíft nám í MR, bekkjarkerfi og skipulagðara félagslíf hentar kannski einhverjum öðrum mun betur en áfangakerfi, opið félagslíf og mikið námsval í MH.
Ég held ég stoppi núna, þetta umræðuefni er álíka skemmtilegt og kjarnorkusprengjur eða eyðni.
Fróðleiksmoli #18: Í Evrópu þurfti að breyta Contra, á Nintendo, í Probotector og breyta öllum manneskjum í vélmenni.
fimmtudagur, 27. janúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli