- Rólega týpan. Hún vaknar á morgnana, fær sér kaffisopa, smá Cheerios og les dagblað. Svo, þegar stutt er í það að strætó stoppi á stoppistöðinni næst húsi manneskjunnar, leggur hún af stað út. Hún tekur sinn tíma, og þegar hún er komin út um dyrnar, sér úr glitta í strætóinn úr fjarlægð. Manneskjan tekur strax þá ákvörðun að hún muni engan veginn ná strætónum og snýr við.
- Spekingurinn. Hann er að spjalla við félaga sína innan veggja skólans síns, þegar upp í haus hans skýst sú pæling að strætó sé væntanlega rétt ókominn. Hann stendur upp, og reiknar út í huganum hversu langt ætli sé í strætóinn á meðan hann labbar í átt að útidyrahurðinni. Svo sér Spekingurinn út um gluggann hvernig strætóinn keyrir hægt og rólega framhjá skólanum. Í stað þess að hlaupa af stað, hefst flókinn líkindareikningur í haus hans um hversu margir þyrftu að vera að bíða eftir strætó til að Spekingurinn hefði haft tíma til að hlaupa að strætónum áður en hann stoppaði til að hugsa sig um. Svo keyrir strætóinn burt, þegar hann er loks búinn að reikna út að hann hefði haft tíma til að hlaupa í áttina að strætónum.
- Óákveðna týpan. Þegar hún sér að hún er alveg að fara að missa af strætó byrjar hún að spretta í áttina að strætóskýlinu. Á miðri leið, finnst henni svo allt vera búið, allt vera farið til fjandans, þannig að hún byrjar að labba rólega í áttina að strætóskýlinu. Síðan sér hún að strætóinn þarf að stoppa frekar lengi til að hleypa inn fólki, og byrjar þá að hlaupa aftur en nær ekki í tæka tíð og reynir ekkert til að ná athygli ökumannsins.
- Sá fífldjarfi. Hann tekur lífinu með "stæl", hættir aldrei við og er ævintýrasinni. Þegar hann sér að það er ein mínuta í komutíma strætó rýkur hann beinustu leið út án þess að fá sér morgunmat, bursta tennurnar eða jafnvel klæða sig. Hann hleypur alla leiðina að strætóskýlinu og rétt nær að banka harkalega í rúðuna til að ná athygli strætóbílstjórans. Að sjálfsögðu verður bílstjórinn aldrei ánægður því annaðhvort varstu að banka í rándýrt gler, stöðvaðir strætó á miðjum gatnamótum eða bílstjóranum geðjast hreinlega ekki að þér, en það sem mestu skiptir máli er að þú náðir þó strætó.
föstudagur, 21. janúar 2005
Að missa af strætó
Hver hefur ekki lent í því að hlaupa á eftir strætó, þegar þú ert rétt að missa af honum. Þetta gerist svona tvisvar í viku hjá mér, enda er ég ekkert rosalega stundvís maður, en ég tek eftir því að þetta kemur oft fyrir aðra. Það er einmitt mjög skemmtilegt að fylgjast með því hversu mismunandi fólk bregst við þessum aðstæðum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli