Þó ég hafi aldrei farið í neitt eiginlegt jólastuð, þá var samt fjör og stuð á mínu heimili um jólin. Ég var glaður yfir því að vera í fríi. Og ég var nýbúinn að læra þá mikilvægu lexíu að börn geta verið bæði mjög skemmtileg og mjög leiðinleg, eftir að hafa leikið jólasvein. Jólamaturinn var frábær, ein af þeim fáu stundum þar sem ég iða ekki í skinninu við að komast burt frá matarborðinu. Sat bara sallarólegur og spjallaði, aldrei þessu vant.
Um matarleytið hófst mikil ráðgáta. Hún byrjaði með því að ég fann svart hár í sveppasósunni. Mikið var rætt um það úr hverjum þetta gæti verið. Ég var ekki með alveg nógu dökkt hár og heldur ekki Freyja. Pabbi hafði ekki komið nálægt sósunni ennþá. Mamma hafði gert sósuna, en hún var alls ekki með dekksta hárið í fjölskyldunni. Umræðuefninu var skipt út fyrir eitthvað annað, þangað til að alltíeinu birtist hárið aftur í sósunni, en í þetta sinn á diskinum hennar Freyju. Grunur féll á sjalið hennar Freyju, en ekki var hægt að vera viss með svona litlar vísbendingar. Lítið bar á þessu laumuhári, þangað til daginn eftir, í jólaboði, kom það upp í döðlubrauðinu hans pabba, en það var Freyja sem hélt á brauðinu.
Það má því álykta að þetta hafi verið úr sjalinu hennar Freyju, en ekkert hefur ennþá verið sannað.
Svo fékk ég fjögur jólakort í ár, sem er heldur betur met. Þeim má ég þakka Dóru, Mörtu, Blóðbankanum og HK. Ég fæ ennþá send jólakort frá HK, af því að þeir halda að ég sé alnafni minn, afi minn, sem er látinn.
Og gjafirnar voru alls ekki af verri kantinum. Physical Graffiti, The Doors og OK Computer. Led Zeppelin og Pink Floyd tónleikar á DVD. Sannleikurinn um Ísland eftir Baggalút, Far Side Collection og Guerilla Film Maker's Handbook. Peysu, bol og nærbuxur. Og hið prúða fríðindakort frá Maju og Helenu. Svo fékk ég líka möndlugjöfina, sem innihélt diskin hennar Ellenar Kristjánsdóttur, sem ég hyggst skipta þegar ég hef tækifæri.
Mikið var ég feginn að fá að eyða frítímanum mínum með minni ástkæru fjölskyldu. Nú eru það bara einn dagur þangað til að æfingar hefjast aftur á fullu. Ég hlakka, og hlakka ekki, til. Þær eru mjög skemmtilegar, en alveg ótrúlega krefjandi. Og halda mér líka gjörsamlega frá minni heittelskuðu. Vildi að ég hefði meiri tíma til að vera með Sif.
sunnudagur, 26. desember 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli