mánudagur, 22. desember 2008

í Nótt

Ég átti erfitt með að sofna í nótt. Og í þetta skiptið var það ekki útaf vælandi ketti eða Jolle (sambýliskonan mín) sem gleymdi að slökkva á sjónvarpinu.

Kl. 1 um nóttina, þegar ég var loksins sofnaður, byrjar einhver að banka harkalega á hurðina. Þar sem ég kem beinustu leið úr draumalandi er ég frekar lengi að átta mig á aðstæðunumm. Fyrst hélt ég að Jolle væri komin heim dauðadrukkin og sé læst úti. Því næst heyri ég að manneskjan sem er að banka er ekki ein. Nágrannarnir eru líka að mumla eitthvað út á gangi. Ég hugsa, hvað er Jolle að spá að öskra svona um miðjan nótt og vekja alla nágrannana?

Þegar ég svo loksins heyri að þetta er ekki kvenmannsrödd að öskra, heldur karlmannsrödd, byrjar viðkomandi að brjóta upp hurðina. Ég sé að í staðinn fyrir myrkrið, sem nú er ansi eðlilegt kl. 1 að nóttu til, blikka blá ljós fyrir utan gluggann minn. Ég staulast úr rúminu, klæði mig í nærbuxur og hleyp að hurðinni staðráðinn í að stöðva manneskjuna áður en hún brýtur upp hurðina. Þegar ég stend upp finn ég fyrst fyrir brunalyktinni.

Ég hika smá, því það leggst ekki vel í mig að fá hurðina alltíeinu brotna upp og fljúgandi í andlitið á mér, þannig að ég hreyfi mig hægt og rólega upp að hurðinni og banka svo harkalega til að gefa til kynna að það er einhver hinum megin við. Þegar ég opna fæ ég svo þrjú fáranlega björt ljós beint beinustu leið í augun mín. Lögreglan stendur fyrir utan og þrír slökkviliðsmenn hlaupa upp tröppurnar. "Það er kviknað í!" "Við þurfum að fá alla út!" "Ert þú Carl?" Allir eru að öskra eitthvað á mig og ég er nývaknaður og ruglaður. "Nei, ég heiti Jón. Má ég fara í buxur?" Ég fæ að fara í buxur, en í ég flýti mér of mikið og gleymi að fara í jakka.

Þegar ég kem út sé ég eina konu sótsvarta í andlitinu, en allir aðrir eru í ágætu ástandi. Þ.e.a.s. miðað við að flestir voru að vakna. Það varð sem betur fer enginn brunaskaði í öllum öðrum íbúðum en þeirri sem upptökin voru í, á 5. hæð og íbúðinni við hliðina á. Eftir einn og hálfan tíma fengum við svo að fara aftur inn. Þegar ég er kominn inn og laggstur í sófann og búinn að róast aðeins niður bankar einhver á hurðina. Þá kom Jolle loksins heim, allsvakalega drukkin. "Hvað gerðist eiginlega?" "Það kviknaði í." "Vá, ok. Þúst, hér?" "Nei, á 5. hæð." "Ok, góða nótt."

Eitt gat ég þó skemmt mér við. Útaf því að ég hafði gleymt að taka með mér jakka var ég sendur inn í lögreglubíl að halda hitanum. Þar var lögreglutalstöð sem af og til tilkynnti mér hvað var að gerast í bænum. Eitt af tilkynningunum hljómaði svona: "Okkur hafa borist fregnir af þjófnaði. Kíkið eftir rauðum Mercedes Benz. Í bílnum er feit, miðaldra kona og ungur maður. Þar að auki er, í skottinu, jólatréið sem þau stálu."

Ég hló upphótt en enginn annar hló.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er greinilega nóg að gera hjá þér ... En það er gott að heyra að það er allt í lagi með þig og þit tog alla aðra í húsinu.

Stefanía sagði...

Hahaaaha. Ég hefði hlegið með þér.

Atli Sig sagði...

Löggur eru alltaf svo húmorlausar.