föstudagur, 8. ágúst 2008

Fatlaður

Um daginn tókst mér, með miklum tilþrifum, að rífa handlegginn minn úr lið. Með því að hoppa í vatn.

Ég lenti ekki á neinu, ég var ekki bundinn við bakkann eða eitthvað þvíumlíkt. Ég hoppaði bara á vatnið. Það er víst ekki alveg hættulaust að stinga sér í vatn á Islands Brygge, eins og ég hef alltaf haldið fram. Ekki ef þú ert óendanlega óheppinn. Við stunguna flýgur vinstri höndin mín aðeins til hliðar áður en ég kem í vatnið. Allur líkaminn minn flýgur því í gegnum vatnið, eins og venjulega, fyrir utan vinstri höndina. Ég kem upp á yfirborðið öskrandi, nakinn og með höndina gjörsamlega óhreyfanlega.

Þar sem ég er með ónýta handlegg get ég ekki komið mér upp úr vatninu þannig að ég, eins og hinn mesti Rambo eða Martin Riggs, fer upp að stiganum og kippi sjálfur handleggnum í lið.

Ég fór til læknisins viku eftir, til að athuga hvort að allt væri í lagi og allt var í góðu. Engin brot, engin slitin liðabönd og í rauninni fór ég ekki alveg úr lið. Ég reyni að forðast að segja þann hluta sögunnar, því það er ekki eins svalt að fara næstum því úr lið, en ég verð nú að vera hreinskilin við ykkur. Eitthvað hreyfðist til, því ég ýtti klárlega einhverju aftur þar sem það átti að vera. En ég er ekki ennþá kominn í hóp þeirra sem hafa farið úr lið og því bara upplifað hluta af sársauka þeirra.

Hinsvegar, er ég kominn í hóp þeirra sem eiga auðveldara með að fara úr lið. Sem er ömurlegt. Og ég þurfti að vera með fatla í viku. Sem er líka ömurlegt, nema þegar maður notar það sem conversation starter við stelpur.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú krúttið mitt er erkiklaufi eins og hinir í familíunni. Er ekki pabbi þinn líka frekar laus í axlarliðnum?

Unknown sagði...

Það er auðvitað nauðsynlegt að hafa eitthvað til að vekja áhuga stelpna en er þetta ekki full langt gengið! Ég veit ekki til þess að ég sé laus í axlarliðum,eða öðrum liðum, nema kannski fótboltaliðum (hef stundum skipt um lið).
Pabbi