Ég lifði þetta af.
Staðurinn hét Skötubarinn, en þegar við mættum voru engin laus borð. Það kom mér frekar mikið á óvart. En þetta er nú að sjálfsögðu háannatími hjá Skötubarnum.
Fékk smá smjörþef af hvurslags týpur var að finna á Skötubarnum. Því þegar við biðum eftir borði og ég skrapp út til að reykja af mér lyktarskynið komu tveir menn út og einn þeirra spyr hinn: "Hvað heitir þessi staður?" Hann horfir lengi á skiltið og segir að lokum "Skötubankinn." Gott hjá þér, hugsa ég.
Inni í brælunni setjumst við svo og fáum bjór og brennivín, það síðarnefnda semsagt nauðsynlegt ef þú ætlar að koma skötunni niður. Og hið fyrrnefnda til að deyfa öll önnur skynfæri, aðallega vitið sem annars gerir allt til að koma í veg fyrir að maður láti upp í sig eitthvað svo úldið og illa lyktandi.
Ég hafði greinilega ekki drukkið nógu mikið af öli, þar sem kroppurinn minn reyndi allt til að stöðva mig þegar ég stakk einum skötubita upp í munninn. Eina leiðin til að kyngja því var að tyggja vel og vandlega þangað til að allt bragðið var farið út sjálfum bitanum yfir í munnvatnið mitt. Þá tók restin af líkamanum við þessum bita og tungan fór að heimta brennivín til að skola öllu munnvatninu öruggt niður hálsinn.
Eftir það var matarlystin ekkert sérstaklega stór, en mér tókst samt að klára skötustykkið mitt. Fríða hélt því fram að skatan væri ekkert sérstaklega slæm þangað til að hún komst að því að hún hefði í raun fengið sér saltfisk. Og Louisa stakk upp á tveimur mismunandi verðmöguleikum fyrir hlaðborðið, fólk sem er að borða í fyrsta skipti og fólk sem hefur borðað áður. Svolítið ósanngjart að við séum að borga jafnmikið fyrir einn bita af skötu og óeðlilegar mannverur sem geta troðið í sig heilli skötu.
Ég get ekki ímyndað mér annað en að þessi siður verði bráðum útdauður.
sunnudagur, 23. desember 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Þú ert hugaðari en ég...
fólk borðar enn þorramat, svo ég held að þessi skötusiður sé ekkert að fara að verða útdauður. það eru alltaf einhverji sem vilja misbjóða lyktarskyni annarra og sanna sig með því að borða ógeðslegan mat.
já þorramatur er ljúfengur
Skrifa ummæli