þriðjudagur, 18. apríl 2006

Neikvæðni

Nei, er ekkert búinn að vera neitt neikvæður undanfarið. Lífið er mjög friðsælt og ánægjulegt hér í Danmörku, sérstaklega þar sem Helgi var í heimsókn. Var bara að pæla í neikvæðni. Svona almennt í öllu fólki. Finnst bara rosalega eins og fólk sé knúið til að líta á það neikvæða í mörgum atvikum. Fólk á mun auðveldara með að benda nákvæmlega á hvað er að þessu, eða hinu, málverki á meðan að ef það sér gott málverk þá er það eina sem fólk kemur út úr sér: "Þetta er geðveikt!"

Þetta á líka við samskipti við manneskjur. Ég tek frekar eftir því hvað fólk er að gera vitlaust heldur en hvað fólk gerir rétt. Ég er mjög meðvitaður um það þegar mamma mín gerir eitthvað sem er ekki alveg rétt í tölvunni, samkvæmt því sem ég hef lært um almenna hegðun í tölvum. Þrátt fyrir að það sé algjört smáatriði og að hún sé enginn auli í hinum stafræna heimi. Á meðan tek ég líka eftir því að þegar ég held herberginu mínu hreinu í langan tíma (sem er að sjálfsögðu mjög breitt hugtak..) þá heyri ég ekkert frá móður minni, blessuðu. En um leið og það er búið að vera skítugt í einn dag þá fæ ég að heyra það. Annars get ég verið algjör gelgja í samskiptum mínum við foreldra mína, og skammast mín mikið fyrir það, þannig að það er kannski ekkert skrítið að okkar samskipti séu af neikvæðum hætti af og til.

Fólk er mjög fljótt að benda einstaklingi á hvað það er heimskulegt af honum að reykja á meðan það tekur varla eftir öllu því góða sem sá gæti verið að gera. Grunnskólakennarar skrifa 'Mjög gott' við heilu síðurnar sem þeim líst vel á en skrifa svo ítarlega gagnrýni á innihald þeirra setninga sem þeim líkar ekkert við. Fréttir um stríð í Írak selja betur en friður í Írak. Krakkar eru settir í skammarkrókinn en enginn er settur á hrósunarstólinn.

..og ég ákvað að skrifa á neikvæðu nótunum í staðinn fyrir þeim jákvæðu.

Engin ummæli: