mánudagur, 6. mars 2006

Norður Ítalía; Skíðaferð

Ég er kominn aftur. Ég er kominn heim til fjölskyldu, kærustu, gæða tónlistar, góðs bjórs, peninga og internets. Góð æfing í íslenskri málfræði..

Ferðin heppnaðist mjög vel. Væntingar mínar til minnar eigin skíðahæfni voru betri en ég þorði nokkurntímann að vona. Það byrjaði talsvert illa. Fyrsta lyftuferðin var hörmung. Ég hafði fengið að vita allt sem ég þurfti að vita um lyftuna. En þegar á diskalyftuna var komið kom í ljós að enginn hafði sagt mér að það væri ekki hægt að setjast. Ég dett á rassinn en lyftan sýnir enga tillitsemi gagnvart því og dregur mig harkalega upp brekkuna á rassgatinu. Eftir aðra tilraun kemst ég svo heill á húfi upp toppinn á barnabrekkunni. Og við erum ekkert að tala um einhverja "piece-of-cake" brekku. Þetta er hardcore á barnaskalanum. Og þoka þar að auki.

Ég hugsa með mér að þetta verði ekkert mál og legg af stað niður með hinum krökkunum. En eftir aðra beygju missi ég algjörlega stjórn á fótunum mínum og bruna niður brekkuna af fullum krafti. Topp kaflinn af brekkunni er alveg ágætlega brattur og því þeytist ég niður og næ rétt svo að beygja til að forðast samskíðafólk. Svo eftir dágóðastund heyri ég Rasmus, skíðakennarann okkar, kalla á mig úr lyftunni: "Jón, ikke ta' så meget fart på!" og ég öskra "Ja, men jeg kan ikke kontrollere det!" rétt áður en ég tek harkalega beygju og dett allsvakalega.

Mjög hress fyrsti dagur. Eftir að hafa sett hraðamet í barnabrekkunni held ég heim og undirbý mig fyrir næsta dag. Ekki beint fullur af vonum.

Annar dagurinn gekk talsvert betri en sá fyrsti. Ég gat haldið stjórninni niður frá toppinum. Þá var komið að því að læra að bremsa almennilega. Gekk ekki svo vel í fyrstu, en svo tókst mér endanlega að bremsa með aðferð sem Rasmus hafði aldrei nokkurn tímann á sínum skíðaferil séð. Hann kallaði það að "ta' en Jon." Ég bremsaði. Skíðin stoppuðu algjörlega í sporunum. En ég flaug þrjá metra burt frá skíðunum.

Á mánudeginum hlýt ég að hafa verið mjög þreyttur því eftir aðeins örfáa bjóra og tvo dansa á barborðinu (til að skaffa ókeypis Tequila) fór ég upp í herbergi og hóf að kasta upp í klósettið. Ragnhild og Jakob skegg komu inn til að bjóða mér upp á vatn, en ég svaraði bara "Krafthelvede, nej. Væk med det der lorte vand!" með hausinn ofan í klósettinu. Jakob krull og Christian, sem höfðu verið sofandi þegar ég kom, komu inn og sáu að ég var líka búinn að æla ofan í rassvaskinn (veit ekkert betra orð yfir þetta apparat) og byrjuðu að skola hann með klósettburstanum á meðan ég lá á gólfinu. Þegar þeir þrifu vaskinn frussaðist vatn yfir mig og ég vaknaði og hrópaði "Nej, nej! La' være med at vaske mig ansigt!" Síðast en ekki síst kemur svo Jakob með tannkrem á puttanum, otandi því framan í mig. "Hva' fanden er du i gang med?" segi ég, vitandi ekkert um efnið á fingrinum hans. Hann tjáir mér að þetta sé til að bursta tennur. Ég, blindfullur og algjörlega heilaskemmdur, svara: "Børst din tænder selv!"

Svo vakna ég um miðja nótt á baðherbergisgólfinu, mjög áttavilltur.

Að öllu öðru leyti gekk þetta samt vel. Ég var farinn að þeyta mér leiprennandi á svörtum brekkum (þeim erfiðustu) og var hækkaður úr byrjendaskóla yfir í miðskólann. Sebastian, einn af ferðaleiðbeinundunum sagði við mig eitt kvöld að hann hefði haldið að ég væri dani. Hann reiknaði bara með því að ég væri alltaf fullur og talaði því svo skringilega.

Síðasta nóttinn var hinsvegar hreint helvíti. Ég var orðinn ágætlega þreyttur á staðnum, asnalegri tónlist og að vera á skíðum og lagði mig því mjög snemma. Planið var að sofna áður en strákarnir kæmu seint í bólið til að vekja mig. Planið gekk ekki. Fyrst hringdi barþjónninn upp í herbergið, því hann fattaði ekki að við vorum allir löngu búnir að borga reikninginn okkar. Síðan kom Christian og vakti mig með því að hósta, prumpa og tala upp úr svefni. Síðan þegar Jakob og Luis komu loksins inn fór brunakerfið í gang. Ég spyr hvað í fjandanum sé í gangi og Christian, skáti, stekkur upp úr rúminu sínu og segir "Det er brandalarmen!"

Eftir að hafa staðið út á gangi á nærbuxunum leggst ég aftur og reyni að sofna undir hrotum, svefndíalógum og hósti frá þrem drengjum. Ég gefst upp á því og legg mig niðrí stofu í korter. Kem aftur upp og þá eru allir strákarnir eins og litlir englar. Algjör þögn. Það var eins og allar hroturnar og óhljóðin hafi verið eitt stórt samsæri gegn mér og að það hefði stoppað algjörlega um leið og ég labbaði út.

Ró. Ég sofna. Ég sofna vel. Ég sofna í u.þ.b. tíu sekúndur áður en að Ragnhild og Karianne koma heim frá dauðafyllerí, dauðadrukknar, þrammandi upp tröppurnar. "Ekki koma inn, ekki koma inn," segi ég í hljóði. Auðvitað komu þær inn með öllum illum látum. Þær vekja Christian og tekst einhvernveginn að fá Luis og Jakob til að hrjóta í takt. Ég ákveð að eini sénsinn til að sofna er að fara inn í eitthvað hljóðlátara herbergi og sofa þar. Ég fer inn til stelpnanna í von um að þær hrjóti minna. Vonir mínar urðu að engu þegar Ragnhild byrjar að hrjóta eins og loftbor.

Nóttin endar því bara á að ég sef inni hjá strákunum og neyðist til að hrista Luis á fimm mínútna fresti til að fá smá frið.

Ég sofnaði kl. 5 og vaknaði kl. 8. Ömurlegur síðasti dagur.

En núna er ég kominn heim og með skíðareynslu undir beltinu. Það er æði. Ég ætla rétt að vona að fólk hafi tekið einhverjar góðar myndir af skíðaferðinni því ég gleymdi myndavélinni.

Engin ummæli: