fimmtudagur, 3. nóvember 2005

Andlitin á bakvið skólann

Ég áttaði mig alltíeinu að ég tala alveg fáranlega mikið um skólann en hef nánast ekkert minnst á fólkið sem er þarna með þér. En hafið engar áhyggjur, ég hyggst kippa því í liðinn hið snarasta.

Christopher - Er ekki handviss um að nafnið hans sé skrifað á þennan hátt,en þetta verður að duga.Ef ég ætti lýsandi mynd af honum væri það af honum að hlaupa út úr brennandi húsi með þrjú munaðarlaus börn í fanginu.Án efa einn sá hjartahlýasti og vinalegasti í skólanum. Hann var með þeim fyrstu sem ég virkilega kynntist eitthvað. Tókum saman strætó út á Amager strönd, þar sem allir aðrir voru á hjóli. Þar heyrði ég framtíðarplön hans um að ferðast til Frakklands og verða trúður. Þá ákvað ég að kenna honum að jöggla, sem endaði svo með því að hann keypti sína eigin bolta (sem voru betri en mínir, meira að segja; elska ykkur samt, kæru jöggl-boltar. (*)) Hann vann hinsvegar aðeins of mikið, að mínu mati. Það var því, með mikilli sorg af minni hálfu, að hann yfirgaf skólann að hálfum honum loknum. En ég hef ekki séð það síðasta af Christopher. Ég er nú einu sinni ennþá með myndavélina hans í láni.

"Jon, hold nu op med at snakke norsk!" - Christopher, eftir að ég ómeðvitað talaði norsku í rifrildi okkar um ágæti myndarinnar Allegro.

Luis - Grallarastrákur skólans, myndi ég segja. Grínar um allt og alla og kynntist ég honum upprunalega í gegnum villtan dansmóð minn fyrsta miðvikudagskvöld skólans. Skólinn, eins og hann lagði sig, nánast, skellti sér út á Mojo's og ég drakk einum bjór of mikið og dansaði eins og brjálæðingur. Það vakti að sjálfsögðu athygli allra, en Luis var sá eini sem var ennþá að tala um það vikunum síðar. Hann er líka sá eini sem kallar mig ennþá "Islændingur," sem er bæði hresst en líka skrítið. Það helsta sem við eigum sameiginlegt er smekkur á kvikmyndum og sjónvarpsefni. Svo kemur það líka fyrir að ég byrja að blístra eitthvað auglýsingastef og upp úr þurru nefnir Luis rétt fyrirtækjanafn, mér til mikillar undrunar. Hann var einnig með í að gera teiknimyndina, sem ég sýndi á menningarnóttinni. Hann er samt með þeim verstu í að skilja bjöguðu dönskuna mína.

Jakob - Hann er algjört gull. Indæll, rólegur og fáranlega góður að leika. Og segist alltaf vera að deyja úr stressi í hvert sinn sem hann fer upp að gera eitthvað fyrir framan smá hóp af fólki. Sem mér finnst ótrúlega fyndið því maður getur engann veginn séð það á honum. Þegar ég fyrst talaði við hann hrósaði hann mér fyrir að tala bara frekar skiljanlega, og sagði að hann ætti venjulega frekar erfitt með að skilja fólk yfirhöfuð. Þegar farið er að líða á skólann finnst mér við verða nánari og nánari. Mér finnst alltaf gaman að spjalla við kauða, þrátt fyrir að það komi títt fyrir að við skiljum ekki hvorn annan.

Þar með lýkur þessu, köllum þetta fyrsta hluta af nokkrum, og vonandi bíðið þið spennt eftir að heyra og sjá meira af þessu klikkaða gengi.

(*) Er eitthvað að mér eða var það algjör nauðsyn að skrifa jöggl fyrir framan boltar til að forðast mistúlkun á orðinu sem ákveðinn hluti líkamans?

Engin ummæli: