Þetta verður örugglega erfiðustu bloggskrif mín hingað til, þar sem ég skrifa með aðeins níu fingrum.
Í gær var vinaveislan góða, þar sem Borups fyllist af allskonar fólki sem maður þekkir ósköp lítið, eða nákvæmlega ekkert. Eftir rúma þrjá tíma af undirbúningi hefst veislan loksins og reggae/ska bandið hefur spilun. Stuttu síðar mætir systir mín, eini vinur minn utan skólans hér í Danmörku, og ég flýti mér að ná í flöskuopnara til að opna bjórinn hennar.
Freyja: "Heldurðu að það sé í lagi að ég sé með minn eigin bjór?"
"Já, já. Hafðu engar áhyggjur," segi ég. "Þetta er rosalega líbó skóli.."
Ég opna flöskuna.
"Jahá... ehm," muldra ég og labba svo upp að barnum. "Maria, jeg har lige haft en lille ulykke. Har du måske en plaster til mig?"
Ég lít niður á alblóðuga hönd mína.
"Eller måske bare en masse papir."
Þremur tímum seinna er ég uppi á slysó (skadestuen) að láta hjúkkunema sprauta mig með stífkrampasprautu. Það misheppnast í fyrstu tilraun. En hann var bara algjört krútt, neminn, og var alltaf að reyna að passa að mér fyndist þetta ekkert vont. Síðan neyddist ég til að bíða allverulega lengi, sökum þess að það þurfti að hlúa að einhverri stelpu sem orgaði svo hátt að það var fljótt að fara í pirrurnar á mér.
Ég ákvað að taka iPodinn minn og fara í smá göngutúr á meðan ég leyfi Freyju að leggjast í sjúkrarúmið mitt. Eftir tæpan tíma eða svo stoppar hjúkka mig á ganginum og spyr hvort ég eigi að vera inni á herbergi 12. "Já," svara ég og hún segir mér að drífa mig inn. Þegar inn er komið , og hún sér Freyju í rúminu, spyr hjúkkan: "Hvem er det så det er syg? Jeg er lidt i tvivl.."
Síðan kemur læknirinn inn og deyfir puttann, og ætlar að fara að sauma sárið þegar það berst í tal að Freyja er dýralæknir. "Nå, vil du prøve?" spyr læknirinn. Hún fær mitt leyfi, og læknirinn saumar fyrsta sporið, og svo saumar Freyja síðustu tvö. "Jeg skal bare lige lukke døren og håbe at ingen kommer ind." Freyja fær hrós fyrir að hafa gert mun betri hnút en læknirinn.
Að lokum sitjum við og bíðum eftir bíl heim, hlustandi á sofandi mann hrjóta inni á biðstofunni. Þegar hann svo loks datt af stólnum sínum og hraut ennþá hærra niðrá gólfinu fór hann að verða svolítið pirrandi.
Það var því lítið úr vinaveislunni, en Freyja fékk að sauma sína fyrstu manneskju, og það líka litla bróðir.
laugardagur, 8. október 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli