Seinustu dagar hafa verið afar tilfinningamiklir. Götuleikhúsið er að líða á enda, Londonferðin hafði mikil áhrif á mig, ég stefni út, talsvert langt frá öllum mínum bestu og heittelskuðu vinum, í heilt ár.
Þetta hefur einnig gert það að verkum að ég tek öllu mjög nærri mér. Venjulega kippi ég mér ekki mikið upp við sorglegustu atriði bíómyndasögunnar, en um daginn þegar ég kom heim frá London og sá að verið var að rífa öll gömlu leikföngin sem ég hafði leikið mér í þegar ég var lítill snáði, hrundi út úr mér eitthvert rosa svekkelsi. Fjölskyldan þurfti að þola nostalgíuröflið mitt í þrjá daga þangað til að ég sætti mig loksins við þetta. Ég stóð svo síðar upp á sviði, núna á Laugardaginn, á uppskeruhátíð Hins Hússins, og verið var að afhenda öllum sem störfuðu hjá Húsinu rós. Núna hefur mér aldrei verið afhent rós fyrir eitthvað sem ég hef gert, og svo var maður umkringdur skapandi fólki og flestallir með bros á vör. Ég svona rétt tárast aðeins, og brosi breitt sjálfur, enda hef ég sjaldan verið jafn ánægður með allt.
Fyrir rúmu ári síðan hefði ég getað litið til baka og séð fátt annað en fyllerí og fíflalæti, með aðeins örfáum hlutum til að vera virkilega stoltur af. En núna er sagan önnur.
Þetta endurspeglast einnig í áfengisneyslu minni, en á föstudagskvöldinu gat ég ekki hamið mig og fór örlítið geist í drykkjunni. Endaði á því að sofna frammi á gangi í blokkinni minni kl. 5 og vakna ekki fyrr en gamall nágranni minn kemur niður kl. 9 um morgun og spyr hvort það sé ekki allt gott og blessað hjá mér. Ég staulast upp, og í tilraun minni til að opna hurðina missi ég jafnvægið og lendi með öxlina beint á litla rammanum með nöfnum fjölskyldunnar, sem brotnar undan gífulegri líkamsþyngd minni, og með þeim afleiðingum að allir á heimilinu vakna. Morguninn eftir finn ég svo upptakara í jakkavasanum mínum sem ég man ekki eftir því að hafa séð. Á hann er áletrað 'Skálinn, Þorlákshöfn.' Ég átta mig á því að ég man mjög lítið eftir heimferðinni, en ég vona að áletrunin á upptakaranum gefi ekki mikið til kynna áfangastaði mína á 'leiðinni' heim.
Ég held að það sé nokkuð öruggt að ég er ekki að fara að endurtaka þetta í bráð.
En hvað um það, ég fer til Danmerkur á fimmtudaginn og þá sjáum við hvort allar þessar tilfinningar fari ekki að róast aðeins niður.
Benedikt Gröndal er eigandi nýjustu tilvitnarinnar, en Benedikt er snillingur mikill sem ég hef aðeins nýverið kynnst en tel mig þekkja hann eins og áragamlan vin.
sunnudagur, 17. júlí 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli