sunnudagur, 10. júlí 2005

Fyrsti Kapituli
Ferðin út og fyrsta dvölin í London

Fyrsta óhappið gerist strax á flugvellinum í Keflavík. Heru tekst einhvernveginn að skemmileggja myndavélina sína. Eftir stóðu því aðeins þrjár myndavélar í hópnum, þar sem að mér tókst eigi að fá dýrgripinn hennar mömmu lánaðan. Mér þótti flugfreyjurnar í fluginu út til London frekar pirraðar, og einstaka sinnum ókurteisar, nema ein af þeim, sem Ása reyndar þekkti. Ég reyndi að vera mjög hjálpsamur og lagði tóman matarbakkann minn á ruslakerruna sem ein af flugfreyjunum var að burðast með, en þá horfði hún bara illskulega á mig eins og ég hefði verið að hella rauðvíni yfir hana. Þar fór öll góðvild mín gagnvart flugfreyjunum í þessu flugi. Sjónvarpsdagskráin var vægast sagt slök. Keen Eddie virkar á mig eins og tónlistarmyndband. Kannski út af þessum skrítnu klippingum sem notaðar eru út allan þáttinn.

"London, Baby!" öskra ég, strax og við komum á Heathrow flugvöllinn. Það er strax þaggað niður í mér, því það er víst ekki við hæfi að láta eins og túristi í London þegar maður er túristi í London. Það er ekki nógu kúl. Fyrsta stopp eftir Heathrow er gamli bangsinn Paddington. Ennþá er ég í einhverskonar dái yfir hinum ýmsu merkilegheitum, sem ég hef aldrei á ævinni minni séð áður. Þar á meðal var hið skemmtilega merki sem varaði mann við pínulitlu gati milli lestarbrautarinnar og lestarinnar. En ekki nóg með það, þá dúndraði líka, í einhverri svakalegastu rödd sem ég hef nokkurn tímann heyrt, "Mind the gap!" Í hvert sinn sem neðanjarðarlest nálgaðist stöðina.

Herbergin sem við gistum í voru hluti af gistingaraðstöðu Háskólans í Westminster en hún var staðsett við Baker Street, sumsé ekkert nálægt Westminster. Þegar inn í hús var komið blasti við gestum stytta af konu sem virtist vera á leiðinni að fara að skjóta út úr sér barni beint í fangið á okkur. Eitthvað vandamál kom upp í sambandi við borgun á gistingunni, því tengiliður okkar í Bretlandi hafði greinilega ekki alveg gengið frá málum við gistihúsið. En það reddaðist og við héldum af stað upp í herbergi. Algjörlega óvanur því að lyftur spjalli við mig á leiðinni upp, fékk undirritaður vægt hjartaáfall. Við blasti síðan annað hjartaáfall þegar við komum upp í sjálf herbergin, en þau voru eins lítil og hægt var að hafa þau og minnti þetta allt rosalega á fangelsi. Ekki það að ég hafi nokkurn tímann stigið fæti inn í fangelsi.

Þarna gistum við fyrstu nóttina, og gat maður vart sofið af spenningi því morgundagurinn var algjörlega í okkar höndum. Á morgun förum við á vit ævintýranna.

Engin ummæli: