mánudagur, 14. mars 2005

Vondur matur; Góður matur

Vont - Cocoa Puffs, mesti viðbjóður sem General Mills hefur framleitt. Breytist í stóra kakóleðju í munninum á þér sem er með öllu ómeltanleg sökum viðbjóðslegs bragðs, og ekki misskilja mig. Mér finnst kakó gott, en þetta er bara einhver óbjóðs kakóframleiðsla; Smokkfiskur, er bara einfaldlega eitthvað sem mér hefur aldrei fundist gott. Ég hef alltaf reynt að gera mömmu til geðs með því að troða smá af honum ofan í mig, en þetta er bara svo fáranlega ósmekklegur matur; Rækjur, get ég aldrei skilið. Fólk dýrkar þetta í tonnavís, á meðan ég fæ mér einn og finnst eins og ég hafi verið að gæða mér á hori.

Gott - Kjúklinganúðlur, og ekki bara einhverjar kjúklinganúðlur heldur kjúklinganúðlur úr verksmiðju Bláa Drekans. Einfaldlega bestu núðlur í heimi; Coco Pops, eina morgunkornið með viti. Rétt magn af kakó, án þess að vera of dauft. Litlu kúlurnar gera það líka að verkum að þetta verður alltaf mjög auðétið; Spaghettí, með tómatsósu. Einfalt og gott. Passa sig að gera ekki of mikið af því, samt.

En svo ég víkji að mikilvægari málum þá var mér bent á eina gamla færslu, af elliæru bloggi mínu sem er ekki lengur viðhaldið og fólk ætti helst að hætta að vísa í. En þessi færsla inniheldur skemmtilegar pælingar, sem spretta upp þegar maður er með svefngalsa og heilinn hæfilega þreyttur, en samt flippaður.
Okey, ég er ekki alveg að geta sofnað og fór að pæla í einu. Andrésína Önd og Andrés Önd eru saman, en samt er Andrésína alltaf að fara út með Hábeini heppna. Þvílík drusla. Ég veit ekki hvernig þetta er í Andabæ en venjulega telst þetta sem framhjáhald. Andrés talar ætíð um hana sem kærustu en kemur síðan að henni á stefnumóti með Hábeini. Eru endur kannski opnari fyrir svona "dating other people" dæmi? En það getur samt ekki verið því Andrés flippar allverulega í hvert skipti sem hann sér kærustuna sína með Hábeini. Eða þá er Andrés greinilega bara svona sérstök önd. Öllum finnst þetta eðlilegt nema Andrési sem tekur bræðiskast og dúndrar einum í fésið á Hábeini.
Þar fáum við líka ástæðuna afhverju Andrés og Andrésína Önd eru ekki löngu búinn að giftast eða ekki orð hafi heyrst af trúlofun. Ég meina, þau eru búin að vera saman í guð má vita hvað langan tíma og ekki borist á varir eitt einasta orð um að Andrés sé að pæla í að bera fram stóru spurninguna.
Og fyrst við erum að pæla í Andrési á annað borð. Afhverju, þegar hann valsar um bæinn út og inn í engum buxum, vefur hann um sig handklæði þegar hann kemur úr sturtu?

Engin ummæli: