
Það er vísu alveg skiljanlegt að kennararnir missi áhugann fyrr eða síðar, þar sem að sumir nemendur bókstaflega liggja á borðinu, slefandi af áhugaleysi á efninu. En það þarf að gera málamiðlanir. Ef þið komið með áhugaverð verkefni, eitthvað nýtt og fjölbreytilegt, þá má vel vera að við veitum því meiri áhuga heldur en að þurfa að hripa niður einhverjar hundleiðinlegar glósur.
Svo þegar það er búið að vekja smá áhuga á efninu, þá er væntanlega mun auðveldara að skapa smá umræður um það. Fá nemendurna til að pæla meira í þessu, en ekki bara sitja í klukkutíma á meðan kennararnir reyna að troða upplýsingunum sem best inn í heilann á þeim.
Sem dæmi um nýjar aðferðir, sem hafa verið teknar í notkun nú þegar, eru tungumálablogg. En þau ættu ekki að einskorðast eingöngu við erlend tungumál. Afhverju ekki að meta íslensk blogg til einkunnar, í ÍSL103. Eða að minnsta kosti verðlauna nemanda fyrir góða íslensku notkun í bloggfærslum sínum. Auðvitað kemur á móti að sumum myndi finnast óþæginlegt ef kennarinn mans læsi bloggið sitt, og öðrum myndi hreinlega ekki lítast á blikuna þegar minnst er á tölvur. Margar færslur sem ég hef lesið hjá hinum ýmsu bloggurum hafa verið innihaldsríkari og betur skrifaðar en margar af mínum ritgerðum.
Svo er andrúmsloftið svo endalaust betra í tímum þar sem myndast tengsl milli nemenda og kennara. Ef bekkurinn fær enga virðingu frá kennaranum þá eru litlar líkur á að bekkurinn sýni kennaranum þá virðingu að hlusta á hann. Og öfugt. Tökum sem dæmi spænskutímar mínir hjá henni Idu, þar sem ég, Finnur og Atli vorum mjög hávaðasamir og Ida þurfti oft að þagga niður í okkur, en þetta voru tvímælalaust bestu tímarnir þá önnina, einfaldlega vegna þess að það sást alltaf að henni fannst við mjög skemmtilegir nemendur. Og þegar við sáum að hún var orðinn virkilega pirruð á okkur, þá virtum við það þegar hún skammaði okkur. Auðvitað voru þetta mjög vafasamir tímar, þar sem við töluðum meira en við lærðum, en það var augljóst í lokin að við höfðum lært eitthvað því við náðum prófunum bara frekar auðveldlega.
En þetta er svo margþætt að ég gæti skrifað alltof langa færslu um þetta, og - ó, vá. Ég virðist vera búinn að því nú þegar. Ætli ég hlífi ykkur ekki frá meiri málefnalegum pælingum varðandi nám. Að minnsta kosti í bili.
Þessi auglýsing. Góð pæling. 'Hey, kaupið ykkur Playstation 2 svo að þið getið horft á vinkonur ykkar tvær spila..' Kaupið ykkur frekar GameCube þar sem þið getið spilað öll fjögur í einu.
Og já, það átti vissulega að vera plokkfiskur, ekki smokkfiskur, í síðustu færslu. Þó að mamma hafi reyndar einu sinni matreitt smokkfisk, ef ég man rétt, sem var ekki bara það versta sem ég hef smakkað á ævi minni, heldur einnig það hryllilegasta sem ég hef séð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli