Eftir að hafa lesið bloggið hennar Diljáar, fékk ég þá hugdettu að kíkja á hvað ég hlustaði mest á iPodinum mínum. Ég bjóst nú fastlega við að sjá hluti á borð við Led Zeppelin og The Beatles en í staðinn blasti fyrir augum mínum listi sem var nánast stútfullur af The Kinks og Brian Wilson. Ekki eitt einasta Led Zeppelin lag að sjá og það var ekki einu sinni hægt að finna eitt stykki Back in the U.S.S.R með Bítlunum. Listinn, sem ég sá fyrir mér sem kannski dálítið einhæfur, reyndist samanstanda einungis af The Kinks, Brian Wilson, Robin Nolan Trio, Stranglers og Beck. Já, og svo eitt lag með Danny Elfman. Reynið bara að giska á hvaða lag það var.
Ég velti fyrir mér ástæðunni fyrir þessum skrítna, og alveg hrikalega einhæfa, lista og komst að engri niðurstöðu. Er ég kannski bara svona ótrúlega tæpur í lagavali, að ég hef ekki hlustað á nýja tónlist í heilt ár?
Ég hyggst bæta þessa stöðu allverulega í sumar, þegar ég mun upphefja sál mína með neyslu á geisladiskum. Sorglegt, eiginlega, hversu vel mér líður þegar ég eyði peningum í eitthvað sem gagnast mér ósköp lítið. En þá hugsa ég bara, hvar væri ég án tónlistar? Einhversstaðar út í skurð að sniffa lím, það skal ég sko segja þér.
Það sem er ofarlega á kaupalista mínum er Wired með Jeff Beck, en Halldór Ásgeirsson leyfði mér að hlusta á upphafslag þessarar plötu, Led Boots, og hreyfst ég mjög af æðislegum grúv þessa manns. Ég fékk svo loks að sjá hinn hluta tvíeykisins taumlausa, Sverri, þegar MR-ingar komu og kynntu leikritið sitt fyrir okkur Hamrahlíðarfólkinu og Sverrir fór á kostum með hljóðnemann.
En svona svo ég tali aðeins um skólann, sem mér finnst svo æðislegur, þá hefur eðlisfræðikennnarinn minn, hún Magga Rokk, vaxið mjög í áliti hjá mér. Hún fékk mjög slæmt upphafsálit, sökum slæmra umsagna frá öðrum nemendum. En eftir nokkrar vikur með henni hefur álit mitt á henni breyst talsvert. Hún er virkilega góður og skemmtilegur kennari, að mínu mati. Hún talar hægt og lágt, en einhverra hluta vegna næ ég alltaf hvað hún er að tala um. Kannski er þetta bara svona einfaldur áfangi. En burtséð frá því þá finnst mér hún alltaf vera hress og til í flipp, hún bara leynir því svo vel. En um leið og hún hefur tækifæri þá tekur hún upp rafbyssur, tengir hljóðnema við þær og biður um hreina tóna. Eintómt flipp.
En skólinn er ekkert alltaf dans á rósum. Ég hef verið óhemju svangur síðastliðna skóladaga, en engan peninginn á ég, því ég hef svona álíka mikið vald á peningum og kettir, jafnt sem hundar, hafa á þvagfærum sínum. Þetta hefur venjulega ekki mikil áhrif á mig, sökum þess að ég er oftast svangur, hvort sem ég er nýbúinn að borða eða ekki, en núna undanfarið er þetta virkilega farið að bíta í. Það liggur við að ég fari að sjá ofsjónir.
Núna þegar ég minnist þess, þá reyndi ég að borða lærið á Finn Guðmunds um daginn. Beint á klepp með mig.
Tilvitnun gærdagsins: Agnethe Stærðfræðisnillingur: "Það sem flest er að gera vitleysa er að þau ekki geta reiknað saman tvo sviga, sem er í sjálfu sér mjög sorglegt."
Agnethe er líka frábær kennari, þrátt fyrir ömurlegt umtal. Getur verið mjög lúmskt fyndin. Sérstaklega íslenskukunnátta hennar.
miðvikudagur, 9. febrúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli