laugardagur, 15. janúar 2005

Hvað er að gerast?

Jæja, ég var ekkert þunnur í morgun. Það er að segja, þangað til að ég fór út og labbaði út á bílastæðið fyrir utan húsið mitt. Tók svona þrjú skref út á hálan ís, og rann allsvakalega. Leið svolítið eins og í teiknimynd. Spólaði smá á ísnum til að reyna að halda jafnvægi, flaug síðan upp í loftið í smástund og hékk nánast í loftinu. En svo hætti þetta að vera teiknimynd og ég datt beint á hliðina. Eftir það fór hausverkur að segja til sín, og ég öskraði geðveikt hátt.

Núna er ég semsagt marinn á hliðinni, en hausverkurinn er sem betur fer farinn.

Pældi mikið í gær, þegar ég var í strætó á leiðinni upp í MH, hvað ég var óendanlega heppinn í grunnskóla, hvað varðar vinahóp. Kannski ekki heppinn, þar sem ég eignaðist mjög fáa vini, en þeir voru góðir. En þannig var einmitt mál með vexti að ég sat í strætó, og inn steig hópur af ungu fólki. Þrír gaurar, sem löbbuðu allir eins og þeir hefðu skitið í buxurnar sínar og væru með lóð á öxlunum sem kom í veg fyrir að þeir gætu labbað eins og menn, en ekki apar. Í fylgd þeirra var svo stelpa, sem var svona týpíska fylgdarstelpa svona stráka. Stelpa sem hlær að hættunni og fær greinilega eitthvað út úr því að hanga með svona hættulegum strákum. Auðvitað er ég að alhæfa gróflega, því ég þekki þessa krakka ekki neitt, en þegar þeir gáfu mér svona augnaráð eins og þeir væru að hugsa sér að ræna mig, þá gat ég ekki annað gert en að fara að dæma þau í huganum. Heyrði alltaf út úr samræðunum orð eins og "sniffa", frá strákunum og "hættu þessu", frá stelpunni. Svo keyrði strætóinn framhjá löggubíl og dulbúnum lögreglubíl og þá brast út heitar umræður millli strákanna um hversu fróðir þeir væru um alla leynilögreglubílana, væntanlega af því að þeir stunda ólöglegt athæfi og þurfa oft að vera viðbúnir því að löggan sé að dulbúa sig til að grípa þá glóðvolga.

Ég veit ekki afhverju þetta fór svona í mig en ég hugsaði bara með mér hvað ég er heppinn að hafa aldrei lent í neinu rugli þegar ég var lítill. Mér var aldrei boðin fíkniefni, fyrr en í fyrsta lagi á öðru ári í menntaskóla. Ég prófaði aldrei að reykja. Og það sem mikilvægast er, því það eitt getur leitt út í allt hitt, að áfengi var eitthvað sem mér var alveg skítsama um þangað til á öðru ári í menntaskóla. Ég tel mig bara hafa komið vel út úr lífinu, þegar ég var ungur, og tel mig hafa byrjað á réttum tíma. Ástæðan fyrir því er mjög einföld. Ég var alltaf með vinum mínum, sem voru góðir krakkar og aldrei í neinu rugli, í stað þess að fara út og reykja og tala um leynilögreglubíla í strætó með öðrum krökkum sem strituðu við það að reyna að vera kúl.

Talandi um áfengi, þá var bjórkvöld í gær eftir Morfís. Þetta var alveg óneitanlega mjög hresst kvöld, sem einkenndist, í mínu tilviki, af miklu sopafylleríi. Sást samt eiginlega ekkert mikið á mér þar til alveg í lokin. Þá fyrst var ég kominn út í "Þið.. þið eruð f-f-frábær.." pakkann og farinn að detta á rassinn og svona skemmtilegheit. Mér finnst annars bara ótrúlegt hvað þessi skemmtilegi vinahópur úr leikfélaginu verður þéttari með hverju skipti sem við hittumst eitthvað utan skólans. Fyndnasti hlutur kvöldsins var án efa Nína gjaldkeri, sem er venjulega mjög ábyrgðarfull og góð. Í kvöld var annað uppá borði hjá Nínu, en besta línan hennar var þegar hún lá með hausinn uppá borði og sagði við okkur: "S-s-strákar... hvað er ég... en... þetta er fulllangt gengið... hvað er ég að gera m-með s-s-sígarettu í höndinni?" Ég endaði hinsvegar kvöldið á því að æla í klósettið heima hjá mér, svo ég get kannski ekki mikið sett út á ástandið hennar Nínu.

Að lokum kemur ein stutt gagnrýni á leikritið sem ég kíkti á, seinasta fimmtudag.

Ausa og stólarnir - Fyndið, absúrt og frábært.

Þessir krakkar í strætónum voru samt örugglega ekki eins slæmir og ég lýsti þeim. Þar að auki, gæti vel verið að þau séu slæm núna en séu líka frábærar manneskju innst inni og sýni það svo best þegar þau fullorðnast. Enda tel ég að allar manneskjur hafi eitthvað gott inn í sér, sama hvað þau sýna að utan.

Engin ummæli: