Samviskan hrjáir mig sí og æ í kvöld, eða nótt, þar sem að ég, Hjálmar og Óli, eftir vel heppnað vídjógláp, löbbuðum út úr húsinu hans Antons og heyrum hávært tíst óma út um glugga á húsinu við hliðina. Brunavarnarkerfið, hugsa ég strax, og fyllist kvíða. Kannski er lítil, krúttleg fjölskylda þarna inni að kafna úr reyk. Vekjaraklukkan, stingur Óli upp á, en Hjálmar er fljótur að stanga þá tilgátu niður þegar hann bendir á þá staðreynd að klukkan er þrjú að nóttu og því ólíklegt að nokkur mannvera sé á leiðinni á fætur. Fyrir framan augu mín bresta á sýnir af voða, sem gæti komið fyrir þessa fjölskyldu ef ég gríp ekki í taumana á þessu máli. En þar sem Hjálmar var að redda mér fari, og vildi fara, þá ákvað ég að gera eitthvað sem ég mun mjög líklega sjá eftir það sem eftir er af lífinu mínu. Ég labbaði burt.
Alla leiðina heim velti ég fyrir mér hvernig mér myndi líða morguninn eftir, þegar ég les í blaðinu að fimm manneskjur, þar af þrjú börn, létust í eldsvoða á Njálsgötu aðfaranótt Sunnudags. Þegar ég fæ hnút í magann við tilhugsunina að ég hefði getað bjargað þessum þrem börnum og foreldrum þeirra.
En ojæja, það verður bara að koma í ljós. Svosem enginn tilgangur að velta sér of mikið upp úr þessu. En samviskubitið mun naga gat í gegnum mig ef ég kemst síðan að því að eitthvað voðalegt slys varð úr þessu.
Annars leigðum við allsvakalega hressandi mynd í kvöld. 11:14 hét sú mynd, og fjallar um fimm tilviljanakennda atburði, sem allir einkennast mjög af morði, aftanákeyrlum og kynlífi. Svört kómedía, þar sem Ben Foster fer á kostum sem maður sem missir typpið, og Stark Sands sem maður sem leitar að typpinu. Myndin tvinnar þessi fimm atvik saman á mjög skemmtilegan hátt, og útkoman er frekar vel heppnuð mynd, sneisafull af typpahúmor.
Á föstudaginn var ég rækilega plataður. Plataður af kærustunni minni. Hún hringir í mig, mjög sakleysislega og spyr hvort ég vilji fara með henni og vinkonu hennar frá Noregi í bíó. Ég spyr hana á hvaða mynd þær ætli á, og hún segist vera að fara á Bridget Jones' Diary 2. Ég fyllist efasemdum um hversu mikla ánægju ég fengi út úr þeirri bíóferð, en þá segir Sif að ég geti fengið frítt, þar sem hún vinnur í bíói og hefur sínar leiðir til að redda bíómiðum. Ég sýni smá efa, og spyr hana hvort hún geti alveg pottþétt reddað mér frítt inn. Já, já, segir hún. Svo staulast ég út í nístingskuldann, og hitti Sif og vinkonu hennar út í strætóskýli. Sif skreppur yfir í bíóið sem hún vinnur í til að fá miða í Sambíóin, og kemur aftur eftir svona korter. Svo þegar við erum loksins komin í Sambíóin, þá er Sif alltíeinu bara með einn frímiða fyrir vinkonu sína, og lætur mig því borga mig inn á. Þvílíkur hrekkjalómur!
Annars var myndin alls ekkert slæm. Fáranleg pæling samt að taka albreskt efni og gera ameríska kvikmynd úr því. Atriði eins og þegar Bridget dettur svona tíu sinnum á skíðum, og rennur síðan inn á einhverja skíðabraut þar sem keppni fer fram, var í mesta lagi svona skondið. En salurinn var bókstaflega að pissa á sig af hlátri. Bridget heldur áfram niður brekkuna, með svona skondinn svip á sér, sem svínvirkar greinilega á áhorfendurna, því þeir voru alveg að missa sig í hlátrinum. Þetta atriði varir í það sem ég hélt að væri korter, og ekki hætti fólk að hlæja. Ótrúlega fyrirsjáanleg mynd á köflum, fyrir utan það að alltíeinu er ein konan lesbía og hrifin af Bridget Jones, og það alveg í blálokin og gjörsamlega samhengislaust og út í bláinn.
Ég gæti hafa logið smá í frásögn minni um Sif hrekkjupúka, en það má alveg vel vera að þetta sé satt!
sunnudagur, 21. nóvember 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
ég missti næstum því vinnuna útaf þessu þannig að haltu bara kjafti væni minn! :)
Skrifa ummæli