föstudagur, 10. febrúar 2006

Fyrir þá sem vilja vita meira um mitt líf

Þá var ég akkúrat þessa stundina að klára upptökur á stuttmyndinni minni. Ég er ekki svo öruggur með að þetta endi sem góð mynd, eftir klippingu. Að fá öll þessi klipp til að hanga saman er frekar erfitt, og það verður augljósara að ég hefði getað planlagt myndina ennþá betur. En burtséð frá því þá hef ég lært alveg hreint fáranlega mikið um kvikmyndagerð, að planleggja og almennt hafa stjórn á fólki og sjálfum mér. Það var mjög hresst.

Mér datt í hug að halda áfram með skrif um fólkið í Borups, skólanum sem ég stunda, sem ég hóf hér í fyrra. Við hefjum nýtt ár með manninum með hattinn. Gøkhan.


Gøkhan - tyrkinn með hattinn. Nafnið hans er örugglega ekki skrifað svona, en ég hef alltaf skrifað það svona og ég ætla ekkert að fara að efast um mín skrif. Við höfðum ekkert talað svo mikið saman á síðasta ári. Vorum samt alveg fínir vinir og, eins og margir af strákunum, þá föðmumst við af og til svona til að sýna að okkur er ekki sama um hvorn annan. Með smá tíma fór ég að kynnast honum betur og um leið og við urðum betri vinir varð hann líka hálfgerður stóri bróðir minn. Hann er talsvert meira lífsreyndur en ég og er alltaf að gefa mér skemmtileg, góð ráð um allt mögulegt. Og svo hef ég það alltaf á tilfinningunni að hann sé svolítið að passa upp á mig af og til. Það er mjög notalegt, og ég enda oftast með að hlusta á það sem hann segir. Í gær ætlaði ég t.d út að kæla mig eftir að hafa dansað eins og Svín (með stóru S-i) á Rust. Hann sagði, "Jón, farðu frekar út í ganginn, því þú átt eftir að verða kvefaður ef þú ferð sveittur út í kuldann." Ég velti þessu fyrir mér, því ég hafði aldrei heyrt þetta áður, en á endanum sagði ég "Jú, það er rétt hjá þér. Takk, maður. Þú ert svo sannarlega stóri bróðir minn."

Í kvöld verða borðaðir hamborgara að hætti Ameríkana, og ekkert nema Johnny Cash verður spilað. Lengi lifi Peninga-Jón.

Engin ummæli: