fimmtudagur, 28. júlí 2005

Nú er herbergið mitt komið í samt lag. Rosalega mikið af hlutum beint úr IKEA, reyndar. En þetta er bara virkilega kósí, með svona þakglugga sem ég gæti stokkið út um hvenær sem ég vildi. Ekki sniðug hugmynd, kannski, en gaman að hafa möguleikann. Ég hef aldrei átt heima í risíbúð áður, og því er þetta skemmtileg lífsreynsla að vera hér í heilt ár.

Ég fór og kíkti á skólann minn í gær, og ekki minnkaði spennan fyrir því að byrja. Mjög vinalegur staður, með svona stórum setugarði í miðjunni, þar fyrir innan er eldhúsið og kaffihús. Svo sá ég stóran sal, þar sem fullt af fólki sat og teiknaði ávexti og allan fjandann. Eitthvert sumarteikninámskeið. Allt í allt er ég mjög ánægður með svæðið.

Það er svo stór spurning hvað maður ætlar svo að gera næsta mánuðinn áður en að skólinn byrjar. Er búinn að vera að svipast um eftir einhverjum jafnöldrum í blokkinni, en þeir eru sjaldséðir. Kannski eru þeir alltaf í vinnunni þegar ég kíki út. Nágrannarnir eru misskemmtilegir. Sumir heilsa manni ávallt vingjarnlega, á meðan fólk eins og M. Brun hanga alltaf inni og horfa illilega á mann út um gluggann þegar maður labbar framhjá. Hún er líka elliær og ill.

En ég held jákvæðninni áfram og vona það allra besta.

Lagið: Trabant - Galdur

Engin ummæli: