þriðjudagur, 3. maí 2005

Þá er fyrsta prófið yfirstaðið

Það fór blessunarlega mjög vel. Hápunktur próftímans var þegar Jói stærðfræðikennari bjó til tvær misstórar skutlur og þrykkti annarri þeirra í mig, og hinni, sem var risastór, á milli tveggja nemenda í mjög saklausum próftökum. Eftir það voru Jói, Gunnar Freyr og Steingrímur alltaf flissandi eins og tíu ára strákar í prakkarafíling. Þetta hefði truflað mig óstjórnanlega mikið, hefði ég ekki verið búinn með prófið. Því hafði ég mjög gaman af þessari dægradvöl kennaranna.

Í dag lærði ég að mismunandi sendingar af bókum, til bóksala (t.d. Eymundsson í Kringlunni), getur af sér mismunandi verð á bókum, jafnvel þó um nákvæmlega sömu bók sé að ræða. Einnig lærði ég að Penninn í Hallarmúla er talsvert breyttur frá því að ég kom þangað síðast inn, fyrir fæðingu Krists. Gufubaðið í Grafarvogslauginni er með því besta sem ég hef prufað. Á vorin fara hundar úr hárum. Og að lokum lærði ég að meta starf strætóbílstjóra, og að þeir séu manneskjur líka, með tilfinningar. Þeir geta gert mistök, eins og að gleyma að stoppa af og til. En það er engin ástæða til að gera grín að þeim.

Segjið svo að ég læri ekki neitt á hverjum degi.

Engin ummæli: