Ég ætla að taka mér frí frá daglegu skissunum frá og með deginum í dag, til næsta mánudags. Í millitíðinni ætla ég mér að skreppa austur á land, til að njóta lífsins og hafa það gaman, í tilefni þess að ég hef lokið prófum. Í staðinn skal ég reyna að koma einni aðeins vandaðri upp á morgun.
Hvernig fór blessaða líffræðiprófið? Tja, við skulum bara segja að ég hafi lært eina mikilvæga lexíu, og mun vonandi aldrei endurtaka þessi gífurlegu mistök. Aldrei skal maður gefast upp. En já, ég er svo mikið sem fallinn í þeirri miklu fræðigrein.
Svo ætla ég að láta hinn sívaxandi lubba, sem er reyndar ekkert miðað við gamla lubbann, fjúka á morgun. En í þetta skiptið ætla ég mér að gera það með stæl. Sigríður Eir, góð vinkona mín, tjáði mér að þjónustan á Toni & Guy væri algjört yndi og því ákvað ég að kíkja á þá búllu, þrátt fyrir hátt verð. Tíminn minn er bókaður hjá Villa, hárgreiðslunema, um hádegi.
Yoshi Touch & Go er einum of skemmtilegur leikur. Ég get ekki látið hann frá mér. Hef ákveðið að skammta mér einn og einn leik í einu, svo ég tröllríði ekki tölvunni algjörlega. Það vill líka svo heppilega til að Sif dýrkar leikinn þannig að stundum er greyið tölvan bara upptekin, aldrei þessu vant.
þriðjudagur, 17. maí 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli