Ég skellti mér í eitt stykki mjög hressan göngutúr. Ekki neitt venjulegan hring um hverfið, heldur skellti ég mér upp í Fimmuna og alla leið upp í Laugarnes, þar sem ég fór út. Síðan labbaði ég heim aftur á svona einum klukkutíma. Mjög hressandi og gaf mér tíma til að hugsa um eitthvað annað en stærðfræði, svona til tilbreytingar.
Einnig komst ég að því að það er margt fallegt í Reykjavík. Mér finnst t.d. brúin yfir Kringlumýrarbraut, fyrir neðan Suðurlandsbraut, mjög falleg. Skemmtilegt hvernig hún bognar til hliðar. Einnig labbaði ég framhjá einmanalegasta manni veraldar, á Laugarveginum, en hann sat á stól inn í tómu herbergi. Fyrir utan kannski eina melónu, eða svo, á gólfinu. Annars væri það mjög feitt að búa í svona íbúð gersneydd efnishyggju.
Ég held samt að þetta hafi ekki verið íbúð, heldur einhver artí-pæling/ádeila á samfélagið.
Talandi um samfélagið, hafið þið einhverntímann ímyndað ykkur hvernig heimurinn væri ef það væru ekki til bílar? Ég viðurkenni alveg að ég nýt góðs af bílum, en ef það væru engir bílar þá væru ekki 3000 manns að deyja af völdum bílslysa á hverjum degi. Ef bílar væru ekki til væri fólk heldur ekkert að flýta sér svona mikið. Allt myndi vera lagað að því að þú færir fótgangandi í vinnuna, skólann eða hvað sem er. Það myndi enginn gera ráð fyrir að þú getir auðveldlega komið þér á einhvern ákveðinn stað á fimm mínutum. Og þess vegna væri engin þörf á að drífa sig. Fólk kemst bara í betra form, fyrir vikið. Mengun myndi minnka talsvert.
Ætli mannskepnan myndi þá finna aðra leið til að valda 3000 manna slysum á dag, og menga loftið í leiðinni? Væri það ekki týpískt.
sunnudagur, 12. desember 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli