Ég er loksins kominn í jólafrí. Eða svona að mestu leyti. Þarf að afla fjár fyrir leikfélagið á morgun. Eitthvað að klæða sig í jólasveinabúning og sprella eilítið. Sem verður örugglega gaman.
En já, æfingin í gær var bara ótrúlega vel heppnuð, að mínu mati, og skemmtileg þar að auki. Það kemur mér alltaf eitthvað á óvart í þessum blessaða Loftkastala. Er alltaf að finna nýjar hurðir sem ýmist liggja út á gang, inn í annað völundarhús, eða bara út í tómarúm með engu gólfi. Það er líkt og mennirnir sem hönnuðu húsið hafi bara byrjað á aðalhurðinni, búið hana til. Síðan gert herbergi og svo koll af kolli án þess að hugsa út í heildarmyndina. Afraksturinn er mesta völundarhús allra tíma, í líkingu við húsin sem smíðuð eru í leikjum á borð við Theme Hospital og Dungeon Keeper, þar sem skipulag er hvergi nálægt. Eftir miðnætti vorum við Hjörtur, Ásta og Olga inn í kalda herberginu svokallaða að mála net. Eftir soldinn tíma var mér tjáð að kvikmyndaverið hliðiná væri töluvert heitara, og skelltum við okkur þangað í soldinn tíma. Sá tími var heldur lengri en við bjuggumst við, enda fundum við allskyns skondið drasl þarna inni. Trompet, hlaupahjól og riststór túba þar á meðal. Síðan fann Hjörtur eitthvað lítið, dimmt skot. Þar inni var ógeðslegt klósett. Eftir töluverða hræðslu af minni hálfu, var Ásta send í að ná í vasaljós. Þegar við lýstum upp herbergið komu í ljós allskyns ógeðfelldir hlutir. Ógeðslega mikið af nöglum í loftinu, ryðgaðir. Lítill brotinn hleri á veggnum. Og svo ein stór, stálhurð sem á stóð í blóði (eða það hefði verið í blóði hefði þetta verið kvikmynd, en það var með penna) "Lokið Helvítis Hurðinni!" Við reyndum eins og við gátum að opna þessa helvítis hurð, með einhverskonar kúbeini, en tókst aldrei. Þegar við vorum við það að gefa upp vonina um að komast nokkurntímann að því hvað væri á bakvið hurðina, heyrðist alltíeinu kallað hinum megin við hurðina: "Hvern djöfullinn eruði að gera?!" Við höfðum greinilega vakið einhvern gaur sem var sofandi í einhverskonar íbúð hinum megin við þessa risastálhurð, sem hótaði síðan að hringja á lögregluna ef hann heyrði eitt aukatekið orð í okkur aftur. Það sem var óþægilegast var að gaurinn vildi aldrei segja okkur hvað væri í rauninni hinum meginn.
Ég er núna bara að skemmta mér við það að taka til og gera allskyns skyldur sem gerðar eru fyrir jólin. Í kvöld kemur Freyja systir svo loksins heim frá útlöndum. Ekki fyrir fullt og allt, langt í frá, heldur bara í jólafrí. Það verður mjög hressandi að fá hana aftur. Ég hlakka mjög svo til.
Djöfull er ég orðinn ótrúlega þreyttur, enda búinn að eyða seinustu vikum alfarið upp í Loftkastala. Man ekki hvenær ég borðaði seinast kvöldmat heima hjá mér. Ég verð samt að segja að taka þátt í þessu leikriti hefur verið ein besta lífsreynsla sem ég hef upplifað. Mjög skemmtilegt fólk sem ég er að vinna með, mjög skemmtilegt leikrit. Mér líður líka bara svo vel að ég sé að leggja metnað í eitthvað.
Já, svo vil ég óska Agli og Kára til hamingju með að hafa sigrað jólalagasmíðakeppni Ríkisútvarpsins. Ef þið viljið hlusta á lagið þeirra, kíkjið þá hingað.
Jæja, best að fara að hjálpa meira til við undirbúninginn. Vonandi eru allir hressir og kátir.
Fróðleiksmoli #13: Latneska heitið fyrir mús er mus musculus.
miðvikudagur, 22. desember 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli