
Sat í tvo daga eftir helgina og bara gerði ekki neitt. Það var frekar þægileg tilfinning.
Hér fylgir ein mynd af lokahófinu. Það er hægt að smella á hana, merkilegt nokk. Þarna er Viktor, réttara sagt Jakob Hansen, að kveðja Axel, öllu heldur Luis M. Pinto, á meðan Tudeberg, sem heitir víst Jón Kristján Kristinsson í alvörunni, stendur og reynir að halda tárunum yfir þeim harmi að Viktor ætli burt til útlanda. Og ef þið eruð heppin, og ég held áfram að skrifa, fylgir kannski enn ein mynd með.
En það var, jú, mjög merkilegt að sitja og gera ekki rassgat í tvo heila daga eftir að hafa staðið og gert allmörg rassgöt síðustu fjóra mánuði. Enn merkilegra var svo að rífa sig upp úr stólnum á þessu yndislega þriðjudagskvöldi og skella sér út að borða með nokkrum velvöldum krökkum úr skólanum. Eins saklaust og þetta kvöld virkaði við fyrstu sýn, enduðum við heima hjá Gøkhan að reykja vatnspípur eins og ég veit ekki hvað. Hann er einfaldlega besti gestgjafi allra tíma. Sátum þarna, reykjandi, hlustandi á Chet Baker og einhvern gaur sem ég man ekki hvað hét og drukkum te.
Algjörlega fullkomið.

Guð, ég er búinn að skrifa nóg til að geta slengt einni mynd til hér. Þessi er af fimm sætum strákum sem ákváðu að troða upp með eitt stykki Bee Gees skemmtiatriði. Þetta æfðum við í tæpan mánuð og tímabili voru flestir mjög svartsýnir á að við gætum nokkurntímann sungið þetta almennilega. En þetta gekk alveg skínandi vel, þrátt fyrir að fyrr sama daginn gat Luis ekki einu sinni hitt réttu tónana á píanóinu til að gefa okkur tóninn. Það reddaðist.
Ég er farinn að hlakka verulega til Jóla, þrátt fyrir að hafa ekki hugmynd um hvað mig langar í jólagjöf. Foreldrar mínir eru farnir að hafa áhyggjur af því hvað þau eiga að gefa mér, en ég hlakka nú bara mest til að setjast niður í sófa með fjölskyldunni, stara á þetta frekar litla tré sem við höfum, borða jólanammi og laufabrauð, og einfaldlega slappa af.
Ég hlakka einnig mjög til að fá manneskjur í heimsókn eftir jól. Og já, að halda áfram í skólanum. Djöfull verður það brjálað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli