Annar Kapituli
Lundúnir og Græni Garður
Því miður fylgja ekki myndir þessari færslu, þar sem að önnur tölvan okkar er á leiðinni til Danmerkur, og inniheldur allar þær myndir sem ég er búinn að fá hingað til.
Morguninn blasir við mér þegar ég rís upp úr rúminu. Útsýnið er magnað. Ég lít út og tel mig sjá hinn eina sanna Big Ben, en það er auðvitað kolrangt hjá mér, er mér tjáð seinna. Hera dregur mig beint inn í Tesco, sem var eitt sinn stór hluti í lífi hennar. Góð matvörubúð þar á ferð, mikið af fínum tilboðum og ódýr appelsínusafi.
Því næst, þar sem meiri hluti hópsins voru kvenmenn - eða réttara sagt allir nema ég - var tekin ein allsherjar verslunarferð. Ég hafði vissulega ekkert á móti því, enda var ég í smá eyðslustuði (sjá viðauka I). Við kíktum á Cambden markaðinn, þar sem nóg var af virkilega góðum sölumönnum sem spjölluðu peningana bókstaflega upp úr veski manns. Sökum mikilla aðvaranna frá Ásu, ríghéldum við í töskurnar okkar og gekk Hera meira að segja svo langt að stinga peningunum sínum inn á brjóstahaldarann sinn, til að forðast það að vera rænd - sem skapaði nokkur vandræðaleg augnablik þegar hún svo þurfti að borga með þessum peningum. Næst lá leið okkar yfir á Oxford Street, þar sem allar helstu búðirnar er að finna, auk mesta stressi sem ég hef nokkurntímann upplifað. Eftir ca. tvo tíma af þessu brjálæði fékk ég nóg, og tjáði restinni af hópnum að ég væri orðinn töluvert þreyttur.
Það var komið kvöld, og flestir voru sammála um að við þyrftum nú að skoða aðeins bæinn sjálfan og leyfa veskinu aðeins að hvíla sig. Neyslusvínin voru hvergi að finna á staðnum sem við stoppuðum hjá. Við rukum út af neðanjarðarlestarstöðinni (lengsta orð í heimi?) og við okkur blasti fögur sjón. Þetta var Big Ben, í allri sinni dýrð og talsverðum ljóma þar að auki. Við vorum komin í Westminster. "Westminster Abbey, baby!" hrópa ég, þegar ég rek augun í hið fræga klaustur, en eins og vanalega er þaggað niður í mér. Ég skildi hvorki upp né niður í því, þar sem að við vorum umkringd túristum hvort eð er.
Eftir langan dag snæddum við svo kvöldverð á mjög fínum, en alls ekki dýrum, ítölskum veitingastað.
Morguninn eftir var ferðinni svo heitið til Green Park Centre, þar sem Bretarnir biðu okkar. Becca, einn af þremur leiðtogum Breska hópsins, náði í okkur á lestarstöðinni í Aylesbury. Mér leið eins og við værum alveg að fara að keyra á alla bílana sem við mættum á leiðinni, enda er ég ekki beint vanur hægri umferð. Green Park var eins og einhver paradís. Hundruðir mismunandi tegundir af trjám umkringdu okkur. Í gegnum skóginn norður af staðnum voru hinsvegar alltaf einhverjar skotæfingar á morgnana. Voðalega viðkunnalegar drunur til að vakna við. Þrátt fyrir að íbúðirnar okkar væru talsvert smáar voru þær þó mjög krúttlegar, og voðalega smart. Á dagskránni voru hátt í þrjár máltíðir á dag, og alltaf mismunandi hlaðborð í hverri máltíð. Ég er ekki frá því að buxurnar mínar hafi þrengst örlítið þessa viku sem við dvöldum þarna. Fyrsta fólkið sem við hittum voru bresku strákarnir tveir, sem voru samt í raun frá Zimbabwe, og tveir aðrir leiðtogar hópsins. Ítalirnir fjórir komu síðan seinna, þegar við þreyttum heræfingar undir leiðsögn manns sem við þekktum einungis sem 'The Rope Man.' Síðar um kvöldið kynntumst við krökkunum betur undir smá áfengi, og okkur var kennt að nota plötusnúðagræjur, auk þess sem við hófum að semja lög í tölvunum. Hinir hóparnir vissu talsvert lítið um það hvað Götuleikhúsið gerði, og var því kjörið að taka eitt stykki götuleik næsta morgun.
Við gerðum okkur til, stelpurnar málaðar upp sem álfkonur, á meðan ég var prýddur djöflabúning frá 17. júní og málaður í samræmi við það. Við fórum út um allt svæðið og hinir hóparnir eltu okkur út um allar trissur. Ég tók eitt dramtískt hopp í gegnum gluggann hjá mötuneytinu. Það gekk alveg prýðisvel nema að í einni af pósunum, sem geta varað alveg heilllengi, settist ég, og ég var berleggjaður, beint ofan í brenninetlurunna. Það var með eindæmum hressandi, en það sást ekkert á mér fyrr en um kvöldið þegar ég byrjaði að bólgna allur upp á löppunum.
Því næst sýndi ein stelpa úr ítalska hópnum okkur hip-hop dans, og á endanum vorum við komin með tvö atriði sem við myndum síðan sýna við The British Council (ef einhver veit hvað þetta er á íslensku, látið í ykkur heyra.) Eitt atriði með djöflum og álfum, og annað með hip-hop dansinum. Allt svo með frumsaminni tónlist. Þannig að Hera, Magga og Gunnur fengu Killian, einn af bresku strákunum, og Luca, einn af þeim ítölsku á meðan ég þurfti að kenna hinum þrem ítölunum og Murrah, hinn breski strákurinn, að vera djöflar. Við fyrstu sýn lenti ég í verri hlutanum. Sá eini sem virtist geta eitthvað hjá mér var ítalski leikarinn Dario, en hann stóð sig mjög vel strax. Restin var talsvert erfiðari. Ekki bætti úr skák að Ítalirnir voru frekar feimnir með enskuna sína, og skildu aðeins eitt og eitt orð úr mér. Killian og Luca voru hinsvegar strax búnir að ná þessu í fyrstu æfingu. Kannski var ég ömurlegur kennari, en það segir sig sjálft að þrír kennnarar virka betur en einn.
Æfingar fyrir dansatriðið gengu mjög illa hjá mér, enda er ég ekki hinn besti dansari þegar að æfðum dansi kemur. Ég get bullað að vild þegar ég kem á dansgólfið, en að fylgja skrefum er ekki mitt fag. Ég efast ekki um að Romina hafi verið orðin alveg jafn pirruð á mínum slöku danshæfileikum og ég var orðinn á leikhæfileikum hennar. En alveg eins og ég hafði alla trú á að hún gæti léttilega komið sér í djöfulshlutverk, þá héldum við dansæfingunum áfram og hún hvatti mig til að reyna bara að lifa mig meira inn í þetta og þá myndi þetta alls ekki líta illa út.
Á hverju kvöldi gerðum við svo eitthvað fáranlega hresst, s.s. að hlusta á LCD Soundsystem, Trabant og Gorillaz í gríð og erg auk þess að dansa. Ítalirnir voru sérstaklega ánægðir með LCD Soundsystem. Annað kvöld fórum við út í Aylesbury í keilu, og sungum svo íslensk og ítölsk lög á leiðinni heim. Luca var ekki lengi að ná 'Áfram bílstjórinn' og við sungum með honum 'Volare.' Sum kvöld fóru einungis í smá vinnu að atriðunum, en um leið vorum við samt alltaf að spjalla saman og kynnast betur. Killian og Murrah voru með áfengi á hverju einasta kvöldi. Við reyndar sýndum smá vit og drukkum ekki öll kvöld, en ég neitaði nú sjaldan sopa eins og mér er einum lagið.
Svo rann upp fimmtudagsmorguninn, og framundan var mikil vinna þar sem ennþá átti eftir að æfa atriðin með fullkláruðum lögum. Á föstudaginn var svo stóra sýningin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli