Ég hef ákveðið að skipuleggja mig örlítið.
Ég hef ákvarðað sérstaka tíma á hverjum degi til heimalærdóms, sumsé tvo tíma á dag. Þar að auki hef ég gert meðvitaða ákvörðun að æfa mig minnst þrisvar í viku í teiknileikni minni. Það verður svo spennandi að sjá hvort ég stenst þessi markmið mín, en það hefur sýnt sig og svarað að ég á miserfitt með að fylgja markmiðum (sbr. áramótaheit mín.)
Ég er þó ennþá með 100% mætingu, sem ég kalla frekar gott. Reyndar er skrópasýkin farin að gægjast upp um hálsmálið á mér. Hún freistar mín, en ég læt það ekkert á mig fá. Get ekki gefist upp þegar ég er kominn svona langt með þetta.
Þar að auki, vöktu allar þessar skipulagspælingar mínar mjög mikinn hressleika innra með mér, og var ég því eiturhress í allan dag.
Pæling dagsins: Hvernig væri ef að blogg væru tekin til greina sem ritgerðir í íslenskuáföngum. Þá meina ég þeim sem lögðu höfuðáherslu á rétt málfar o.s.fr. en ekki að efni ritgerðarinnar sé um eitthvað ákveðið. Ég hef gert margt hér á þessu bloggi sem ég er meira stoltur af heldur en sumar af ritgerðunum sem ég gerði fyrir íslensku. Guði sé lof að ég hef loks lokið þessum íslenskuáföngum. Margir kennarar eru ennþá að nota hrikalega úreltar kennsluaðferðir sem einfaldlega henta ekki okkar kynslóð, Y-kynslóðinni (sjá bloggið hans Tobba), sem alin er upp við tölvur og þesslags. Tölvur eru auðvitað ekki endalaus uppspretta góðra kennsluaðferða, en hana má brúka í margt.
Lagið: Mega Man 2 - Minibosses
Málshátturinn: Margur fegrar yfirsjónir sínar með eftirdæmum annarra.
þriðjudagur, 8. febrúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli