Ég er að verða svo endalaust pirraður á Super Mario Bros!
Þegar maður var yngri, var þetta allt lauflétt, að hoppa yfir brúna karla, sem líkjast mest saur, og sýna kúnstir sínar fyrir ofan yfirgnæfandi stórar, og djúpar, gjár. En núna, þegar ég ætla að renna mér einu sinni í gegnum þennan gullmola, tekur það hrikalega mikið á taugar mínar og þolinmæði. Hversu oft þarf ég að berjast í gegnum múrveggi risaeðlunnar, eða hvað sem þetta nú er í endann á hverjum einasta kastala, til þess eins að heyra einhvern sveppalúða tjá mér að prinessan sé í öðrum kastala. Geturðu ekki bara sagt mér í hvaða kastala hún sé, svo ég þurfi ekki að þramma í gegnum hvern einasta kastala sem ég sé á leiðinni? Það er alveg augljóst að þú ert mikill landkönnuður og fljótur að hlaupa, enda ertu alltaf kominn á undan mér hvert sem ég fer. Ef þetta heldur svona áfram máttu bara eiga þessa bévítans prinessu, því ég vil ekki sjá 'ana og ég veit ekki betur en að ég sé að gera þetta allt fyrir þig og þína líka.
Ég tók svo eftir því að ég þekkti nánast engin af þessum borðum sem ég var að labba um. Þá dagaði allt í einu upp fyrir mér ástæðan fyrir því hversu auðvelt þetta var áður fyrr. Ég svindlaði! Ég hafði einmitt sett mér það markmið, þegar ég byrjaði að spila þetta núna fyrir stuttu, að ég myndi ekki fara ofan í rörin snemma í leiknum sem flytja þig langt fram í leikinn. Það er augljóst núna, að ég notaðist við þessi blessuðu rör allverulega mikið í den tid (svo maður sletti dönskunni hér, aðeins) og má það kallast ekkert annað en svindl, kæru lesendur.
Þannig að núna er ég ekki alveg eins pirraður og ég var áðan, því ég veit að ég er heiðarlegur maður. Og það er ekki mér að kenna að Sveppi (ekki úr 70 mínútum, hoh, hoh) er hálfviti sem getur ekki leiðbeint mér í rétta átt, hvað þá séð um að prinsessan týnist ekki einu sinni á ári. Fífl.
miðvikudagur, 2. febrúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli