Ég vil byrja á því að afsaka síðustu færslu á þessu blessaða bloggi. Ég hefði frekar átt að sleppa því að skrifa hana, en þið fenguð þó góða innsýn inn í hugarástand mitt akkúrat á þessum tímapunkti.
En iPodinn minn tók upp á því að flippa smá, og neitaði að spila lög fyrir mín sperrtu eyru. Svo að þegar ég kom heim endaði ég með því að hvítþvo litla krílið og er því núna í miðjum klíðum við að setja inn tónlist.
Síðustu tvær strætóferðir voru örugglega þær ömurlegustu sem ég hef lent í. Sú fyrri, um morguninn, var ekki svo slæm. Hún byrjaði mjög vel, mér tókst að koma mér út um dyrnar áður en lagalistinn minn byrjar (sem er orðið hálfgerð íþrótt hjá mér á morgnana) og ímyndaði ég mér að þetta væri innkoman mín inn í kvikmynd. Ég spókaði mig vel um í þokunni (hvað er málið með það?) og komst tímanlega í strætó. Hingað til, mjög fínt. En þegar ekki var nema helmingur eftir að ferðinni þá vildi svo til að rafhlaða hvíta tónlistarskrattans stakk af og skildi mig eftir í hávaða almenningsbifreiða. Sem betur fer var mjög takmarkað magn af pirrandi fólki þar á ferð, en síðan í seinni ferðinni, heim úr skólanum, voru þrír IB-nemar að spjalla saman á ensku. Sem var allt gott og blessað nema að þetta voru allt krakkar sem ættu frekar að vera í grunnskóla, með tilheyrandi gelgjustælum. Svo ég nefni dæmi um nokkrar setningar þeirra, þá bar á varir þeirra hlutir á borð við "Oh my god, no. He wasn't with a guy, it was a girl. Oh my god, he's not like.. gay, or something. Ew." með þessari rosalega skemmtilegu rödd. Ég fór út úr þessum strætó í flýti.
Og til að ljúka þessum strætósögum, þá hefur borgin tekið í notkun nýja strætóvagna, sem eru vægast sagt mest óþolandi vagnar sögunnar. Þeir líta ágætlega út að utan, en innanborðs bíður þín blikkljós, óþolandi væl þegar hurðirnar lokast og sætisáklæði ljótari en þessi í Kópavogsstrætóum.
Ég hef tekið þá mjög sniðugu ákvörðun að gera mér ekki neinar vonir um að komast í Borups lýðháskólann, því þá verð ég bara fyrir þessum ágætis vonbrigðum þegar ég fæ höfnunarbréf. En ætli þetta sé bara svona fyrstir koma, fyrstir fá díll, sem þýðir að ég ætti að eiga góðan séns? Þið, kæru lesendur, sem og ég, fáið að vita það innan skamms.
Nýjir tímar eru framundan, hinsvegar, og ekkert mun stöðva mig.
þriðjudagur, 22. febrúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli