mánudagur, 10. janúar 2005

Vá, gamalt og gott

Örugglega ein af mikilvægustu lífsreynslum ársins 2004 hér á ferð, fann þetta á gamla blogginu mínu. Held ég deili þessari sögu með ykkur:

Kirtlataka

Mánudagsmorgun. Ég vakna við það að pabbi ýtir við mér og segir mér að ég eigi að fara upp á spítala. Það reyndist bara hafa verið einhver misskilningur og einhver lúði hafði bara strokað mig útaf listanum. Ég var á leiðinni í kirtlatöku.

Þegar ég kem upp á spítala og labba inná dagdeildina, heilsar mér viðkunnaleg kona og segir mér að klæða mig í einhver spítalaföt. Ég dreg fyrir og lít á spítalafötin. Nærbuxur, sokkar og skyrta öll merkt "Eign Þvottahúss Spítalanna." Ég leggst niður í rúmið og hlusta á minidisc-spilarann minn. Svo ligg ég, eign Þvottahússins, þarna í rúminu mínu á dagdeildinni í klukkutíma þangað til að það kemur önnur kona inn og segist ætla með mig upp á skurðdeild. Ég hef aldrei verið á spítala áður svo ég ætlaði bara að standa upp, enda hraustur sem fíll, en þá tjáir konan mér að hún keyrir rúmið mitt bara. Mér leið hálfilla að láta keyra mig um sjúkrahúsið eins og einhver aumingi, starandi upp í loftið. Þegar ég loksins er kominn á skurðdeildina kemur gömul hjúkka út um hurð og segir hissa: "Nú, þetta er karlmaður," Að mér læddist sá grunur að skurðlæknarnir hefðu fengið litlar upplýsingar um komu mínu þar sem þeir höfðu ekki einu sinni nafnið mitt. Svæfingalæknirinn segir kaldhæðnislega "Já, eða bara skeggjuð kona." Ég ætlaði að hlæja að þessu en ég var að hugsa of mikið til að hafa tíma til að hlæja. Mér fannst eins og ég hefði komið þangað algjörlega fyrirvaralaust og að enginn hefði í raun verið tilbúinn til að fá mig þangað. Svo komu spurningar sem mér fannst eins og hefðu átt að vera spurðar föstudaginn áður, eins og hvort ég sé ekki alveg örugglega á fastandi maga síðan í gær. Ég vissi það ekki fyrr en um morguninn að ég átti að vera á fastandi maga síðan í gær. Úps. En ég kinka kolli, því ég vill ekki láta hætta við aðgerðina. Spyr bara svæfingalækninn afhverju ég þurfi að vera á fastandi maga, en það er víst bara til að ég fari ekki að æla á skurðlæknana. Ég lét það ekki á mig fá, enda er mér nokk sama hvað ég geri á meðan ég er svæfður. Ég er færður inn á skurðstofuna, ennþá í rúminu eins og aumingi, og leggst á skurðborðið. Enn einn læknir kemur fyrir nál, og viti menn ég er kominn með næringu í æð. Svo gerðist eitthvað skrítið. Ein af hjúkkunum, sú yngsta, eða svo virtist, ákvað að halda utan um höndina á mér. Og það skrítna var, að þrátt fyrir að þetta væri gjörsamlega ókunnug manneskja, ég sá ekki einu sinni framan í hana á þessum tímapunkti vegna grímunnar sem hún hafði á andlitinu, þá fékk ég dálitla öryggistilfinningu frá henni. Það seinasta sem ég man eftir var þegar svæfingarlæknirinn lét á mig súrefnisgrímu.

Ég vaknaði svo uppi á vöknunardeild og varð fyrir miklum vonbrigðum. Enginn draumur, engin vitrun, engin eyðimörk, enginn Jim Morrison, enginn nakinn indjáni. Bara hálfs sekúndna myrkur og svo vöknunardeild. Vöknunardeild þar sem ég var fastur í rúminu mínu, með hjartalínurit, blóðþrýstingsmæli og næringu í æð. Svo allt í einu, þegar ég fer að sjá umhverfið betur, heyri ég þessar rosa drunur. Frábært, ég lenti á vöknunardeild með manni sem hrýtur eins og borvél. Tveimur klukkutímum, og mörgum hrotum, seinna átta vöknunarhjúkkurnar sig loksins á því að ég hef verið glaðvakandi í töluverðan tíma og hringja í dagdeildina. Hálftíma seinna kemur svo dagdeildarkonan upp að sækja mig. Nú var ég loksins feginn að vera dreginn um á rúminu því ég var ekkert í stuði til að standa upp.

Allt virtist hafa gengið vel, ég var sendur heim klukkan hálf fimm, og ligg núna megnið af deginum með vatnsglas í annarri og frostpinna í hinni að horfa á sjónvarpið. Má víst ekki reyna neitt á mig í tvær vikur. Jafnvel minnsta áreynsla eins og að hlaupa upp stiga getur valdið blæðingum í hálsinum. En ég kem aftur í skólann eftir 7 til 10 daga.

Djöfull er gott að vera laus við þessa ógeðslegu, sýktu hálskirtla.

Lou Reed - I'm So Free

Engin ummæli: